Print this page

Um líffræðifélagið

Líffræðifélag Íslands var stofnað í Reykjavík árið 1979 í þeim tilgangi að "auka þekkingu á líffræði, auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga, og tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál", eins og segir í lögum félagsins. Þótt segja megi að Internetið og tölvupóstur hafi nú gert síðarnefndu markmiðin að sínum lifir félagið enn góðu lífi. Félagar eru nú um 400 talsins, langflestir líffræðimenntaðir, en félagið er þó opið öllum sem áhuga hafa á líffræði og skyldum greinum og vilja stuðla að framgangi þeirra. Uppistaðan í starfsemi félagsins eru fyrirlestrar og myndakvöld, sem haldnir eru reglulega yfir vetrarmánuðina, en líffræðingar eru auk þess alkunnt gleði- og skemmtanafólk mikið og er félaginu því varla stætt á öðru en að standa fyrir árlegum haustfagnaði. Er þar jafnan margt um manninn, enda hápunktur félagslífs (þ.e. "biosocial event") hvers árs og gefst líffræðingum þar kostur á að skemmta sér og sínum meðal annarra sinnar tegundar (þ.e. samkvæmisdýra, (Animal convivialis).

En félagsþörf líffræðinga er þó enn ekki svalað, né heldur þörf þeirra á að miðla fróðleik um fræði sín, og stendur félagið því einnig fyrir reglulegum ráðstefnum um mál sem ofarlega eru á döfinni hverju sinni. Hafa 18 ráðstefnur verið haldnar frá stofnun félagsins og í tilefni 20 ára afmælis félagsins 1999 var haldin viðamesta ráðstefnan til þessa. Var hún haldin 18.-20.nóvember í samvinnu við Líffræðistofnun HÍ og bar yfirskriftina Líffræðirannsóknir á Íslandi. Leikurinn var endurtekinn 19.-20.nóvember 2004 undir sömu formerkjum.

Félagið lætur sér annt um tómstundir félagsmanna og hefur í því skyni boðið upp á nokkur námskeið, nú síðast ljósmyndanámskeið þar sem færri komust að en vildu. Félagið gefur reglulega út fréttabréf sem hefur að geyma tilkynningar um fyrirlestra og annað félagsstarf, ritfregnir, námskeið og ýmis tilboð til félagsmanna, að ógleymdum hinum sívinsælu ritstjóraspistlum.

Póstlisti félagsins var tekinn í gagnið í október 1999. Hann tapaðist árið 2009 og nú er verið að endurnýja hann - http://lif.gresjan.is/skraning/ .

Hafir þú að loknum þessum lestri áhuga á að taka þátt í starfi félagsins, geturðu skráð þig á ofangreindri síðu, við biðjum um um nafn, heimilisfang og netfang. Þessum upplýsingum verður ekki deilt eða þær seldar. Félagsgjöld eru kr. 2000 á ári. Finnist þér þetta hins vegar martröð líkast er félagið líklega ekki hið rétta fyrir þig ...

Félagið er hlynnt virku lýðræði, frjálsu upplýsingaflæði, málfrelsi,upplýstu samþykki o.s.frv. Hafir þú spurningar um félagið eða liggi þér eitthvað annað á hjarta skaltu endilega senda póst á ritara félagsins Arnar Pálsson (apalsson@hi.is). Sé þér af einhverjum ástæðum ófært að senda tölvupóst, má senda klassískan bréfapóst:

Líffræðifélag Íslands
Pósthólf 5019
125 Reykjavík

Núverandi stjórn (2009-2010)

Formaður: Snæbjörn Pálsson
Meðstjórnandi: Bjarni Kr. Kristjánsson
Gjaldkeri: Snorri Páll Davíðsson
Ritari: Arnar Pálsson
Fulltrúi líffræðinema: Stefanía L. Stefánsdóttir