Print this page

Setningarræða rektors HÍ

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands setti fyrirlestrarröð Darwin daganna sem hófst formlega laugardaginn 29. ágúst 2009. Þann dag fluttu Peter og Rosemary Grant erindi um finkur Darwins í hátíðasal Háskóla Íslands. Kristín gaf góðfúslegt leyfi fyrir endurprentun setningaræðunnar hér. Fyrri hluti ræðunnar er á íslensku en seinni hluta ávarpsins var beint til fyrirlesaranna og er því á ensku. Hún birtist hér í heild sinni án breytinga.

Góðir gestir, Charles Robert Darwin fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury á Englandi og því tvær aldir liðnar frá fæðingu hans.

Darwin er án efa einn merkasti líffræðingur sögunnar. Með riti sínu Um uppruna tegundanna setti hann fram byltingarkennda kenningu um þróun lífs á jörðu, þróunarkenninguna. Kenningin hefur haft djúptæk áhrif á vísindalega hugsun allar götur síðan.

Bókin Um uppruna tegundanna er nokkurs konar ágrip af stærra verki sem Darwin hafði unnið að um áratuga skeið, og dregur saman staðreyndir úr lífríki, jarðsögu og landbúnaði. Hann setti kenninguna fram á skýran hátt og rökræddi grundvallar forsendur og afleiðingar hennar. Þróunarkenningin samanstendur í raun af tveimur grundvallarhugmyndum, önnur er sú að náttúrulegt val leiði til aðlagana og varðveiti eiginleika lífvera og hin er sú að allar lífverur á jörðinni séu skyldar og myndi þróunartré.

Þróunarkenningin var fyrst kynnt á fundi Linneaska félagsins í London sumarið 1858. Kenning Darwins var mjög umdeild þegar hún var sett fram, enda fram að þeim tíma almennt talið að guð hefði skapað manninn. Að maðurinn væri í raun dýr, hefði þróast af öpum, var mörgum óbærileg tilhugsun.

Það má með sanni segja að þróunarkenningin sé víðtækasta kenning líffræðinnar. Við sjáum merki um hana allsstaðar og sífellt eykst skilningur á þróun lífvera. Á þeim 150 árum sem liðin eru síðan þróunarkenning Darwins kom fram hefur fjöldi vísindamanna uppgötvað nýjar hliðar þróunarinnar sem Darwin kynntist aldrei.

Það er gaman að geta sagt frá því á afmælisári Darwins að mikill áhugi er á náttúrufræðigreinum við Háskóla Íslands. Við sjáum að umsóknir í líffræði, jarðfræði og landfræði eru nærri helmingi fleiri en í fyrra og eðlisfræðin og jarðeðlisfræðin njóta einnig vaxandi vinsælda.

Það er einnig gaman að geta þess að vísindamenn okkar í sameindalíffræði, erfðafræði, líffræði, jarðvísindum mynda ein sterkustu rannsóknarsvið innan Háskóla Íslands. Þetta eru vísindamenn sem starfa af miklum metnaði og heilindum við að leita svara og leysa gátur lífsins og njóta þeir mikillar virðingar hér heima og á alþjóðavettvangi. Þeirra mikilvæga starf felst ekki síður í að miðla til stúdenta og örva þá til þátttöku í þekkingarleit. Það er vel við hæfi að starfi og verkum Darwins sé haldið á lofti því þróunarkenningin er enn í dag grunnur allrar líffræði. Darwin var framúrskarandi vísindamaður og hugsuður, og gríðarlega kjarkmikill í framsetningu nýrra kenninga.

Víða um heim er þessara merku tímamóta í sögu náttúruvísinda minnst með fyrirlestraröðum, sýningum á söfnum, fræðslu í skólum og umfjöllun í vísindatímaritum og fjölmiðlum. Íslendingar láta ekki sitt eftir liggja og mig langar að þakka þeim Arnari Pálssyni, Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, Steindóri Erlingssyni, Bjarna Kristjánssyni, Snæbirni Pálssyni og Einari Árnasyni fyrir þeirra góða framtak að halda Darwin daga hér á Íslandi.

Það er mér mikil ánægja að setja þessa glæsilegu fyrirlestrarröð. Að lokum langar mig að bjóða velkomin prófessorahjónin Peter Grant og Rosemary Grant.

Peter and Rosemary, it is a distinct pleasure to welcome you to the University of Iceland. As you know, we are facing challenges in changing times in this country. Here at the University we take our role in the restoration ahead very seriously and are convinced that it is best played through the pursuit of excellence in research and teaching. It is therefore an inspiration for us to have you here to present results of your excellent research and to commemorate a remarkable scientist who not only was brilliant but also quite courageous in the presentation of his results and theories.

I know I speak on behalf of all of us here today, when I say that we look very much forward to hearing your lecture.