Print this page

Erindi Peter og Rosemary Grant

Peter og Rosemary Grant héldu tvö erindi laugardaginn 29 ágúst, annað um tegundamyndun og hitt um þróun finkanna á Galapagos. Fyrra erindið var í boði Líffræðistofnunar Háskóla Íslands, og í því rakti Peter Grant rannsóknir um myndun nýrra tegunda meðal fugla.

Peter byrjaði á því að sýna mynd af fjölbreytileika finkanna á Hawaii, sem því miður hafa tapað tölunni. Hann tók síðan tilgátur um samsvæða tegundamyndun hjá fuglum til nákvæmrar skoðunnar, og komst að þeirri niðurstöðu að þau dæmi sem haldið hefur verið á lofti mætti betur útskýra með öðrum líkönum um tegundamyndun.

Erindi Grant hjónanna um finkur Darwins og þróun, markaði formlega upphaf fyrirlestraraðar í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ setti fyrirlestraröðina með ágætri ræðu (sjá hér).

Einar Árnason, Peter og Rosemary Grant hlýða á setningaræðu Kristínar Ingólfsdóttur rektors HÍ.

Peter Grant hafði komið til Íslands sem ungur maður, m.a. til að leita jurta. Fyrir um 35 árum ákváðu þau hjónin að staldra hér við vegna þess að hérlendis eru mjög þróttugar lundabyggðir. Þau höfðu verið að rannsaka máfa sem rændu mat af lundum. Í Vík fundu þau annan ræningja, skjótari og liprari í lofti, kjóann.

Einar Árnason kynnti fyrirlestur Peters Grant um samsvæða tegundamyndun fugla

Einar Árnason sem vann með Grant hjónunum að rannsóknum á afráni kjóans og breytileika í útliti snigla við Vík í Mýrdal kynnti báða fyrirlestrana og þau hjónin.

Grant hjónin, Kristín Ingólfsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir fundarstjóri hlýða á kynningu Einar Árnasonar.

Grant hjónin lögðu áherslu á að þróun getur verið mjög ör. Einnig skipta einstakir atburðir oft miklu máli, hvort sem um er að ræða hamfarir eða happakast. Miklir þurrkar hafa áhrif á framboð fræja á eyjunum, og á hinn bogin getur aukin rigning í kjölfar El Nino valdið róttækum breytingum á gróðri og þar með fræsamsetningu. Finkustofnarnir eru nauðbeygðir til að svara þessum breytingum, líklega vegna þess að fæðuframboð skiptir mestu um afdrif einstaklinganna (það eru helst uglur sem stunda afrán á finkunnum, en ekki er vitað um sýkingar aðrar eða meindýr). Goggastærðin hefur breyst heilmikið á þeim rúmu 30 árum sem þau hafa vaktað finkurnar. Því fer fjarri að breytingarnar hafi verið stefnubundnar, sum árin eru stórir goggar heppilegir en í öðru árferði reynast litlir goggar betur. Sem undirstrikar eina af lykilályktunum þróunafræðinnar, þróun hefur enga stefnu.

Grant hjónin sýndu snemma fram á hátt arfgengi goggastærðarinnar. Rétt eftir aldamót náðu þau og samstarfsmenn þeirra við Harvard einnig að greina breytingar í tjáningu þroskunargena sem tengjast formi goggsins.

Rosemary Grant flutti seinni hluta erindisins um finkur Darwins. Hún sýndi niðurstöður úr rannsóknum þeirra á kynblöndun milli finkutegunda, gaf dæmi um mökunaratferli fuglanna og vistfræði þeirra. Það var sérstaklega fróðlegt að heyra hvernig og hvenær ungfuglarnir læra söng foreldranna (sem ákvarðar síðan hvers konar maka þeir kjósa sér).

Rannsóknir Grant hjónanna eru það margþættar og auðugar að ekki er mögulegt að gera þeim tilhlýðileg skil í stuttri samantekt sem þessari. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér rannsóknir þeirra er bent á nýlegar yfirlitsgreinar þeirra og tvær bækur um finkurnar á Galapagos og vefsíður þeirra við Princeton háskóla (Peter og Rosemary).

The Beak of the Finch: A Story of Evolution in Our Time eftir Jonathan Weiner.

Ecology and Evolution of Darwin's Finches eftir Peter R. Grant.

Grant, P.R . and Grant, B. R. (2005) Darwin's Finches. Current Biology 15: R614-R615.

Grant, P.R. and Grant, B.R. (2006). Evolution of character displacement in Darwin's Finches. Science 313: 224-226.