Print this page

Lýsingar á efni fyrirlestra

6. júlí 2009.

Neanderthalsmaðurinn: erfðamengi og stofnerfðafræði (Population genetics of the Neanderthal genome project.) - Montgomery Slatkin.

Montgomery Slatkin er prófessor við University of California at Berkeley. Markmið verkefnisins er að raðgreina erfðamengi Neanderthalsmanna til að bera saman við erfðamengi nútímamannsins. Hver eru þróunarleg tengsl Neanderthalsmannsins og nútímamannsins? Geta erfðabreytingar kastað ljósi á hvernig nútímamaðurinn lagði upp frá Afríku fyrir um 100.000 árum og nam á stuttum tíma ný lönd um allan heim?

Fyrirlesturinn verður haldinn 6. júlí klukkan 12:00 í Öskju, stofu 132. Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Population genetics of the Neanderthal genome project.

Montgomery Slatkin is professor of population genetics in the Department of Integrative Biology University of California at Berkeley. The lecture is part of the Icelandic Darwin Days 2009 lecture series celebrating Charles Darwin's 200 anniversary and the 150 anniversary of the publication of the Origin of Species.

The lecture will be given on 6 July at 12:00 in Askja, Room 132. The Neandertal genome sequence will clarify the evolutionary relationship between humans and Neandertals as well as help identify those genetic changes that enabled modern humans to leave Africa and rapidly spread around the world, starting around 100,000 years ago. The lecture will be in English and is open to the public free of charge.

24. október 2009.

Finkur Darwins og þróun - Peter og Rosemary Grant

Charles Darwin kom til Galapagoseyja árið 1835 og heillaðist samstundis af jarðfræði og lífríki eyjanna. Á eyjunum má finna afar fjölbreytilegar finkur sem hafa aðgreinst í 13 mismunandi afbrigði vegna aðlagana að mismunandi fæðu og umhverfi. Þannig eru sumar finkutegundirnar með mjóa langa gogga sem henta vel til að ná skordýrum. Aðrar tegundir eru með breiða og stutta gogga sem nýtast vel til að brjóta skurn af hörðum fræjum. Þróunarfræðingarnir og hjónin Peter - og Rosemary Grant við Princeton háskóla, hafa um áratuga skeið rannsakað fjölbreytileika finkanna á Galapagos. Þau hafa orðið vitni að hraðri þróun, þar sem goggar ákveðinna tegunda hafa breyst mjög hratt í kjölfar breytinga á fæðuframboði. Þau munu segja frá niðurstöðum sínum í yfirlitserindi er þau nefna "Finkur Darwins og þróun".

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin. Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands mun setja fyrirlestraröðina. Erindið verður flutt á ensku.

Evolution of Darwin's Finches

The famous evolutionary biologists Peter and Rosemary Grant, of Princeton University, will present their research on the Galapagos finches in a seminar titled "Evolution of Darwin's Finches". The seminar is part of seminar series honoring Charles Darwin, as 200 years have passed since his birth. The Rector of the University of Iceland, Kristín Ingólfsdóttir will provide welcome and opening remarks. The talk will be in English.

3 október 2009.

Uppruni lífsins - Guðmundur Eggertsson

Guðmundur Eggertsson sem kallaður hefur verið „faðir erfðafræðinnar á Íslandi" mun halda erindi um uppruna lífsins. Líf á jörðinni er allt af sömu rót, en stærstu spurningunni er ósvarað. Hvernig varð lífið til? Kviknaði líf á jörðinni, einhvern tímann aftur í grárri forneskju, eða fluttist það til jarðarinnar frá öðrum hnöttum?

Guðmundur er einna fróðastur íslendinga á þessu sviði. Hann hefur rýnt í margar ólíkar tilgátur, tilraunir og röksemdir sem settar hafa verið fram um forsendur og tilurð lífs. Hann mun gefa yfirlit um sögu hugmynda okkar um uppruna lífsins, kryfja hinar margvíslegu tilgátur og benda á hvernig við komumst nær hinu sanna í málinu.

Guðmundur er emeritus prófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og stundaði kröftugar rannsóknir í sameindaerfðafræði, sérstaklega á eiginleikum tRNA og genum úr hitakærum bakteríum. Guðmundur hefur gefið út tvær bækur almenns eðlis um erfðafræði (Líf af lífi) og um tilurð lífs á jörðinni (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi), báðar útgefnar af Bjarti.

The origin of life

Gudmundur Eggertsson, professor emeritus, at the Department of life and environmental sciences at the University of Iceland will give a lecture on the origin of life. Gudmundur, the "father of genetic research in Iceland", has dedicated his professional life to study of molecular and bacterial genetics. He has written two popular science books for the Icelandic public, Lif af lifi, about the history and foundations of genetics, and Leitin ad uppruna lifs, an historic and biological account of research into the origin of life. In his seminar he will give an overview of our past and present understanding of this fundamental problem.

The seminar is free, open to all and will be given in Icelandic.

24. október 2009.

Steingervingar og þróun lífs - Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Laugardaginn 24 október munu Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir halda erindi um vitnisburð steingervinga um þróun lífs á jörðinni. Þó vitnisburður steingervinga sé um margt glopp-óttur og mörgum spurningum sé enn ósvarað um hvar og hvenær mismunandi hópar lífvera komu fram og hvernig þeir þróuðust, gefa steingervingar góða mynd af stærstu dráttunum í sögu lífs.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um elstu þekkta steingervinga og líf í hafinu í árdaga jarðar, uppkomu vefdýra og lífssprenginguna á kambríumtímabilinu. Þá verður stiklað á stóru um landnám og þróun plantna og dýra, aldauðaviðburði (þegar stór hluti lífvera dó út) og þróunarlega svörun lífvera við stórfelldum umhverfisbreytingum (flekahreyfingar og ísaldir). Að síðustu verður fjallað um "lifandi steingervinga" og reynt að svara spurningunni hver sé þýðing steingervinga fyrir sýn okkar á þróun lífsins? Ólafur Ingólfsson er prófessor í jarðfræði við Jarðvísindadeild HÍ, og Ingibjörg Svala Jónsdóttir er prófessor í vistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Þau hafa stundað rannsóknir og birt fjölmargar greinar og bókarkafla á sínum fræðasviðum, er snerta jarðsögu og plöntuvistfræði.

Fossils and evolution of life

Ólafur Ingólfsson and Ingibjörg Svala Jónsdóttir, professors in geology and ecology, respectively, at University of Iceland, will give a lecture on fossils and evolution of life in the Darwin seminar series. The lecture will focus on fossils through geological time, with emphasis on earliest fossil evidence of life and its evolution, the Cambrian life explosion and colonization of dry land by plants and animals. Mass extinctions in Earths history and evolutionary responses to large-scale environmental changes (drifting continents, ice ages) will be touched upon, as well as "living fossils". Finally, the importance of fossils for our understanding of evolution through time will be discussed.

31. október 2009.

Rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins - Joe Cain

Þann 31. október mun Joe Cain halda erindi er nefnist Rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins. Í erindinu verður fjallað um rannsóknir Darwins á manninum, sérstaklega rannsóknir á þróun „æðri vitsmuna", eiginleika sem einkenna manninn og aðgreina hann frá dýrum. Útlistun á þróun þessara eiginleika var eitt erfiðasta vandamálið sem Darwin stóð frammi fyrir í rannsóknum sínum. Það hefur æ síðar vafist fyrir vísindamönnum og jafnframt heillað þá. Dr. Joe Cain mun á aðgengilegan hátt varpa ljósi á tilraunir Darwins til að skýra viðfangsefnið.

Joe Cain er dósent í sögu og heimspeki líffræðinnar við Department of Science and Technology Studies við University College í London. Í rannsóknum sínum hefur hann einkum beint sjónum að sögu þróunarfræðinnar, sögu vísinda í Bandaríkjunum og rannsóknum á sögu náttúrufræða. Joe Cain er einnig sérfræðingur í Darwin, Darwinisma og vísindasagnfræði. Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer nú á haustmánuðum. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku. Stund: 31. október 2009, kl. 13:00 Staður: Hátíðarsalur, aðalbyggingu Háskóla Íslands

Darwin's study of expression: The most important questions in his work

Joe Cain, senior lecturer in history and philosophy of biology, Department of Science and Technology Studies, University College, London, will give a lecture on Darwin's study ofhumans, especially his studies of the evolution of "higher faculties". In his research, Dr. Cain has focused on the history of evolutionary studies, history of American science, and history of natural history. He also has expertise in Darwin and Darwinism as well as history of science in London.

This presentation is part of a seminar series celebrating the two hundredth anniversary of Charles Darwin's birth. The seminar is free, open to all and will be given in English.

7. nóvember 2009.

Þróun atferlis - Sigurður S. Snorrason og Hrefna Sigurjónsdóttir

Atferlisfræðin er eitt áhugaverðasta en um leið eitt flóknasta svið líffræðinnar. Viðunandi skilningur á atferli dýra byggist á að það sé skoðað frá sjónarhóli erfða- og þroskunarfræði, lífeðlisfræði, vistfræði, þróunarsögu og þróunarlíffræði. Í fyrirlestrinum munu Sigurður og Hrefna leitast við að skýra þessa samþættu sýn og setja hana í sögulegt samhengi. Áhersla verður lögð á sjónarhorn atferlisvistfræðinnar þar sem leitast er við að útskýra hegðun út frá vistfræði og settar fram tilgátur um aðlögunargildi hegðunar. Fræðilegum líkönum sem sett hafa verið fram til að útskýra þróun hegðunar verður stuttlega lýst og vísað í dæmi um prófun þeirra. Í erindinu verður stuðst við dæmi um skemmtilega og fróðlega hegðun dýra eins og sýningar fasana, bardagahegðun klaufdýra, samhæfða hegðun sem byggist á samskiptum, farhegðun, foreldraumönnun, sníkjuvarp, fæðuhegðun, óðalshegðun og komið inn á gáfnafar dýra.

Hrefna hefur kennt líffræðinemum HÍ dýraatferlisfræði í fjölda ára og verðandi líffræðikennurum við KHÍ dýrafræði, atferlisfræði, vistfræði, umhverfisfræði o.fl. Hún lauk doktorsprófi í greininni 1980, frá Háslólanum í Liverpool, og hefur lagt stund á æxlunarhegðun mykjuflugna og bleikju og síðustu 12 árin á félagshegðun hesta. Hún er prófessor við HÍ.

Sigurður lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Háskólanum í Liverpool árið 1982. Hann hefur verið kennari í líffræðiskor HÍ um árabil og kennt dýrafræði, vistfræði, atferlisfræði og þroskunarfræði. Rannsóknir Sigurðar hafa aðallega beinst að myndun afbrigða og tegunda hjá ferskvatnsfiskum, einkum hvernig þessi þróunarferli tengjast breytileika í atferli og útliti svo og hvernig má rekja þennan breytileika til þroskunarferlis.

14. nóvember 2009.

Sterkt val á Pan I geninu í þorski vegna veiða: spá um hrun fiskirís - Einar Árnason

Darwin kenndi okkur að skilja náttúrlegt val. Tæknivæddur, er maðurinn mikilvirkur afræningi og afrán hans getur virkað sem máttugur valkraftur. Það gildir um nútíma fiskveiðar. Pan I genið í þorski hefur tvö allel og arfgerðir gensins tengjast svipgerðum sem velja sér búsvæði eftir dýpi. Sterkt val vegna fiskveiða, sem beinast í ríku mæli að fiski á ákveðnu búsvæði, finnst á geninu. Valið er óbeint og verður vegna þess að fiskur velur sér búsvæði eftir arfgerð og fiskveiðar eru mestar í ákveðnu búsvæði. Mat á hæfnistölum er gerð. Hæfnismat er notað til að spá fyrir um breytingar á samsetningu stofnsins. Spáin er að arfgerðir fisks sem eru lagaðar að grunnsævi hverfi fljótt úr stofninum ef fram heldur sem horfir. Afleiðingin kann að verða hrun fiskveiða úr stofninum.

Einar Árnason er prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur rannsakað atferli kjóans, breytileika í brekkubobbum, náttúrulegt val í ávaxtaflugum, en mesta áherslu hefur hann lagt á rannsóknir á fjölbreytileika og erfðasamsetningu nytjastofna við Ísland og í Atlantshafi.

Strong selection on the Pan I locus in Atlantic cod due to fishing: a predicted collapse of fishery

Einar Árnason, Professor of Evolutionary Biology at the University of Iceland will talk about fishery induced selection in cod, which has relevance to fisheries management, population genetics and evolutionary biology.