Print this page

Arfleifð Darwins

 

Í Arfleifð Darwins er þráðurinn tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður rannsókna síðari tíma. Bókin inniheldur fjórtán greinar ritaðar af sextán íslenskum fræðimönnum á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði. Tilefnið er að árið 2009 var 200 ára afmæli Darwins og 150 ár frá útgáfu Uppruna tegundanna.

Dagskrá útgáfuhátíðarinnar:

16:30 - 16:40 Kynning á bókinni Arfleifð Darwins - Hafdís Hanna Ægisdóttir.

16:40 - 16:50 Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins - Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

16:50 - 17:00 Hvunndagshetjan Darwin - Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands.

17:00 - 18:00 Boðið verður upp á léttar veitingar auk þess sem bókin verður til sýnis og til sölu á sérstöku tilboðsverði.

Allir eru hjartanlega velkomnir á útgáfuhátíðina.

Bókin Arfleifð Darwins er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, og kemur út í byrjun október 2010. Hún fjallar um þróunarfræði, Darwin og nýjar rannsóknir á sviðum líffræðinnar og einnig í jarðfræði, hugvísindum og vísindasagnfræði - nánari upplýsingar á vefsíðu helgaða bókinni, þar sem lesa má sýnishorn úr köflum bókarinnar og inngang hennar, og síðu á fésbókinni helgaða Arfleifð Darwins.

Staðsetning: Stofa 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Tímasetning 5. október 2010, frá kl. 16:30 til 18:00.

Arfleifð Darwins á Facebook.

Nokkur orð úr formála:

Þróunarkenningin tengist nafni enska náttúrufræðingsins Charles Darwin órjúfanlegum böndum. Þar ber hæst útgáfu bókar hans Uppruni tegundanna árið 1859. Þann 24. nóvember 2009 voru 150 ár liðin frá útgáfu hennar. Það sama ár voru einnig liðin 200 ár frá fæðingu Darwins, en hann fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury á Englandi og lést árið 1882. Þessi tvöföldu tímamót urðu kveikjan að bók þessari og nokkrum viðburðum sem ritstjórn hennar stóð fyrir og nefndust Darwin-dagar 2009. Að þeim dögum komu einnig nokkrir samstarfsaðilar: samtök líffræðikennara, líffræðifélag Íslands, líffræðistofnun Háskóla Íslands, siðmennt, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Hið íslenska bókmenntafélag.

Frekar lítið hefur verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Þær birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags á árunum 1887-1889, en tvær síðustu greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom Uppruni tegundanna loks út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmennta félags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Þeirri bók sem hér er fylgt úr hlaði er ætlað að fylla upp í þetta tómarúm, en markhópur hennar er fólk með áhuga á lífinu, þróun þess og fjölbreytileika, sögu hugmyndanna og stórum spurningum um líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni. Bókin nýtist einnig nemum í framhaldsskólum og háskólum sem inngangur og ítarefni um þróun lífvera.

Reykjavík í ágúst 2010. Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson, Steindór J. Erlingsson.

Kápan var hönnuð af Bjarna Helgasyni. Egill Baldursson sá um umbrot, og Þorvaldur Kristinsson las textann yfir af mikill natni. Ritnefndin stendur í ómælanlegri þakkarskuld við þessa herramenn, og Gunnar Hauk Ingimundarson hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi sem annaðist útgáfuna.

Sæljón við strendur Galapagoseyja. Myndina tók Hafdís Hanna Ægistdóttir.


Til baka: Ráðstefna HA og Hólaskóla
Næsta síða: Efnisyfirlit