1. Þróunarkenningin - Einar Árnason.
2. Gen, umhverfi og svipfar lífveru - Einar Árnason.
3. Landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi, 1872-1910 - Steindór J. Erlingsson.
4. Lífríki eyja: Sérstaða og þróun - Hafdís Hanna Ægisdóttir.
5. Vitnisburður steingervinga um þróun lífs á jörðinni - Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
6. Áhrif Darwins á flokkunarfræði 19. aldar og nútímans - Guðmundur Guðmundsson.
7. Þróun atferlis - Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason.
8. Myndun tegunda og afbrigðamyndun íslenskra ferskvatnsfiska - Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni Kristófer Kristjánsson.
9. Þróun kynæxlunar - Snæbjörn Pálsson.
10. Uppruni lífs - Guðmundur Eggertsson.
11. Þróun mannsins- Arnar Pálsson.
12. Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins:Sókn eftir nýjum breytileika - Áslaug Helgadóttir.
13. Menning, mím og mannskepnur:Þróunarkenningin í hug- og félagsvísindum samtímans - Guðmundur Ingi Markússon.
14. Að skilja hugtökin er meira en að segja það - Hrefna Sigurjónsdóttir.

Um efni bókarinnar - úr inngangi.

Í fyrsta kafla rekur Einar Árnason meginskýringar Darwins á þróun. Í fyrsta lagi hvernig saga lífsins tengist vegna erfða og myndar eitt ættartré sem greinst hefur á milljónum ára í bakteríur, plöntur og dýr, og í öðru lagi hvernig náttúrulegt val hefur leitt til margvíslegra aðlagana sem áður voru taldar helstu vitnisburðir um almáttugan skapara. ... Í öðrum kafla ræðir Einar hvernig svipfar eða eiginleikar einstaklinga mótast af samspili umhverfis og erfða... Í þriðja kafla bókarinnar gerir Steindór J. Erlingsson grein fyrir viðtökum þróunarkenningar Darwins á Íslandi á árunum 1872-1910. Þar fjallar hann m.a. um skoðanir Benedikts Gröndal, Þorvalds Thoroddsen og fleiri á kenningunni. Flestir voru þeir á einhverjum tíma hlynntir þróunarkenningunni, en skoðanir voru skiptar um gildi náttúrulega valsins.

Eyjar eru að mörgu leyti tilraunastofur þróunar og samanburður á lífríki þeirra og nærliggjandi meginlanda varð ein kveikjan að hugmyndum Darwins... Hafdís Hanna Ægisdóttir gerir þessu efni skil í fjórða kafla bókarinnar auk þess að segja frá hnattreisu Darwins. Á ferð sinni bar Darwin saman lífríki og steingervinga ólíkra heimsálfa og áttaði sig á sögulegri aðgreiningu þeirra. Sú aðgreining er hvergi betur staðfest en í steingervingasögunni, sem er umfjöllunarefni Ólafs Ingólfssonar og Ingibjargar Svölu Jónsdóttur í fimmta kafla bókarinnar. Kaflinn spannar jarðsöguna allt frá fyrstu tíð og að nútímalífverum... Guðmundur Guðmundsson greinir í sjötta kafla frá sögu flokkunarfræðinnar. Flokkunarfræði nútímans byggist á hugmynd Darwins um eitt lífsins tré og hafa niðurstöður flokkunarfræðinga endurspeglað sögu lífsins á svipaðan hátt og steingervingasagan. Lengi vel voru menn ekki á eitt sáttir um aðferðir í flokkunarfræði, en meiri sátt um vinnuaðferðir hefur náðst á síðustu árum með nýjum aðferðum... Lífríkið er í stöðugri þróun og þróunarkraftar hafa á skömmum tíma áhrif á mismunandi eiginleika, m.a. atferli dýra. Í sjöunda kafla bókarinnar fjalla Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason um rannsóknir á þróun atferlis og hvernig mismunandi hegðun eins og fórnfýsi hefur getað þróast... Þróunarbreytingar meðal ólíkra stofna innan tegunda geta leitt til æxlunarlegrar einangrunar milli stofnanna og þannig til aðskilnaðar tegunda. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson fjalla í áttunda kafla um ástæður tegundamyndunar og taka dæmi úr rannsóknum sínum á afbrigðamyndun bleikju og hornsíla á Íslandi. Tegundirnar sýna þess merki að vera á fyrstu stigum tegundamyndunar þar sem fjölbreytileiki búsvæða, tegundafábreytni og samkeppni innan tegunda virðist hafa leitt til örrar aðgreiningar. Í níunda kafla fjallar Snæbjörn Pálsson um þróun kynæxlunar sem hefur verið talin ein helsta ráðgáta þróunarfræðinnar, þ.e. hvers vegna nær öll dýr og plöntur stunda kynæxlun þrátt fyrir ýmiss konar kostnað umfram kynlausa æxlun. Uppruni lífsins er einnig ein helsta ráðgáta þróunarfræðinnar sem Darwin fjallaði lítið sem ekkert um. Kenning hans skýrir aðeins sameiginlegan uppruna allra lífvera á jörðinni og hvernig lífið þróast en ekki hvernig það varð til í upphafi. Guðmundur Eggertsson fyllir hér inn í og í tíunda kafla dregur hann saman helstu hugmyndir manna um fyrstu skref lífs á jörðinni. Maðurinn hefur sérstöðu í lífríkinu vegna vitsmuna, en einnig er hann sú tegund sem við þekkjum einna best, bæði í tilliti til útbreiðslusögu og líffræði. Arnar Pálsson fjallar um þróun mannsins í ellefta kafla, hvernig rannsóknir hafa sýnt þróun mannsins frá skyldum lífverum og hvernig þróunarfræðin hjálpar okkur til að skilja orsakir að baki sjúkdómum. Hagnýtt gildi þróunarfræði má einnig finna í kynbótum dýra og plantna sem stundaðar hafa verið um árabil. Darwin tók ýmis dæmi úr kynbótum til að skýra náttúrulegt val. Í tólfta kafla ræðir Áslaug Helgadóttir um kynbætur og rannsóknir á uppruna nytjaplantna...

Tveir síðustu kaflar bókarinnar fjalla um það hvernig þróunarfræðin tengist menningu okkar og skilningi. Guðmundur Ingi Markússon greinir frá þýðingu þróunarfræðinnar í trúarbragðafræðum og menningu, hvernig hugmyndir geta þróast líkt og erfðamengi og hvernig trúariðkun gæti hafa þjónað hlutverki í þróun mannsins. Trúariðkun kann að hafa dregið úr átökum og tryggt samvinnu sem gæti hafa aukið lífslíkur og frjósemi manna og þannig átt sér á vissan hátt náttúrulegar skýringar. Hrefna Sigurjónsdóttir lýkur svo bókinni á umfjöllun um hugtakaskilning og athuganir á hugtakaskilningi nemenda. Merking orða, líkt og gena og atferlis, er háð því samhengi sem þau eru sett fram í og til að merking orða sé sem skýrust þarf að gera þeim góð skil.