Á tímabilinu 1999 til 2004 var gefið út fréttabréf líffræðifélagsins.

Umbrot gæti hafa raskast á fréttabréfum ársins 1999 sem aðgengileg eru hér að neðan.


Hér er að finna þau fréttabréf félagsins sem gefin voru út 1999 og voru auðfáanleg á rafrænu formi.  Þau eru hér í þeirri tímaröð að nýjasta fréttabréfið er efst.  Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson Pósthólf 5019, 125 Rvk.
6.tbl. apríl 1999 5.tbl. apríl 1999 4.tbl. mars 1999
3.tbl. feb. 1999 2.tbl.feb. 1999 1.tbl. feb. 1999

 

 

 

20. árg. 8. tbl. september 1999.

FYRIRLESTUR

Miðvikudaginn 27. október mun Guðmundur Guðmundsson flytja fyrirlestur sem nefnist

Rannsóknir á farleiðum farfugla með hjálp ratsjár í þremur leiðöngrum um Norðurheimsskautssvæðið 1994-99.

Sagt verður frá þremur leiðöngrum á vegum sænsku heimsskautarannsóknastofnunarinnar um norðurhöf í máli og myndum og greint frá helstu niðurstöðum rannsókna á farfuglum. Fyrsti leiðangurinn (Tundra Ecology-94) var farinn um "Norðausturleiðina" sumarið 1994 með ströndum Síberíu, allt frá Kólaskaga í vestri að Wrangeleyju í austri. Annar leiðangurinn (Arctic Ocean-96) var farinn sumarið 1996 um austanvert Norðuríshafið og á Norðurpólinn. Þriðji leiðangurinn (Tundra Northwest-99) var farinn um "Norðvesturleiðina" síðastliðið sumar.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Rannsóknir á farleiðum farfugla með hjálp ratsjár í þremur leiðöngrum um Norðurheimsskautssvæðið 1994-99.

Sagt verður frá þremur leiðöngrum á vegum sænsku heimsskautarannsóknastofnunarinnar um norðurhöf í máli og myndum og greint frá helstu niðurstöðum rannsókna á farfuglum. Fyrsti leiðangurinn (Tundra Ecology-94) var farinn um "Norðausturleiðina" sumarið 1994 með ströndum Síberíu, allt frá Kólaskaga í vestri að Wrangeleyju í austri. Annar leiðangurinn (Arctic Ocean-96) var farinn sumarið 1996 um austanvert Norðuríshafið og á Norðurpólinn. Þriðji leiðangurinn (Tundra Northwest-99) var farinn um "Norðvesturleiðina" síðastliðið sumar.
Leiðangrarnir 1994 og 1999 voru fjölbreyttir landvistfræðileiðangrar, en skip voru notuð til að flytja vísindamenn á milli rannsóknarstöðva þar sem þeim var flogið í land til vinnu í einn til tvo sólarhringa. Leiðangurinn um Norðuríshafið var farinn á sænskum ísbrjóti. Í öllum tilfellum var ratsjá (s.k. "tracking radar") með í för sem notuð var til að fylgjast með ferðum farfugla í grennd við skipið.
Með ratsjá af þessu tagi er hægt að fylgja einstökum fuglum eða hópum allt að 20 km frá skipinu. Upplýsingar um lárétta og lóðrétta stefnu, auk fjarlægðar að fuglunum er skráð og því hægt að endurskapa feril þeirra í þrívíðu plani. Þar fást því upplýsingar um flugstefnu, flughæð, láréttann flughraða yfir jörðu sem og lóðréttann. Út frá mælingum á vindhraða má svo reikna raunverulegan hraða ("airspeed") og stefnu fuglanna.
Radarrannsóknir með ströndum Síberíu gáfu um 1500 flugferla sem unnið hefur verið úr. Þar komu fram allskýr mörk milli farleiða í vestur (Afríka, Atlantshaf) og austur (Ameríka, Kyrrahaf) skammt austan Taymyrskaga að haustlagi. Athyglisvert var að rúmlega fimmtungur fugla á austurleið stefndu norðan við austur og flugu út yfir Íshafið.
Til þess að kanna hvort farleiðir fugla liggi yfir innanvert Norðuríshaf tókum við þátt í rannsóknarleiðangri þangað sumarið 1996. Getgátur hafa verið uppi um slíkt í nokkra áratugi og farleið oft dregin á kort ásamt spurningarmerki. Það er skemmst frá því að segja að ekki varð nokkurra farfugla vart í yfir 200 klukkustunda leit með ratsjánni á tímabilinu 24. júlí til 18. september.
Í leiðangrinum sumarið 1999 um heimsskautahéruð Kanada voru um 800 flugferlar farfugla skráðir. Þar fékkst mikilvæg tenging við niðurstöður frá Síberíu, því farfuglar komu í háflugi (2-4 km hæð) úr norðvestri yfir Beauforthaf. Þar er komin bein tenging um stórbaug við fuglana sem yfirgáfu mið-Síberíu á NNA-stefnum. Leiðangurinn hafði viðdvöl á segulskautinu nyrðra, en þar var lítið um fugla.

 

Nýtt merki félagsins

Eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur félagið nú tekið upp nýtt merki.
Gamla merkið var hannað og teiknað af Björgu Sveinsdóttur líffræðingi og myndlistarnema og birtist það fyrst á forsíðu fréttabréfsins í október 1985. Merki þetta hefur þó því miður þótt erfitt í vinnslu eftir að tölvutæknin tók alfarið við í vinnslu blaðsins. Kom stórnin sér því saman um að nýtt merki yrði hannað í tilefni 20 ára afmælis félagsins og tók Menja von Schmalensee, varaformaður Líffræðifélagsins og listakona, að sér að hanna það.
Í næsta fréttabréfi mun birtast skýring Menju á merkinu, en þangað til geta félagar velt vöngum yfir því.

Lagabreytingar

Á síðasta aðalfundi voru samþykktar fjórar lagabreytingartillögur. Til glöggvunar fyrir félaga eru gildandi lög félagsins birt hér í heild sinni.

Lög Líffræðifélags Íslands


1. Félagið heitir Líffræðifélag Íslands. Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.
2. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.
3. Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.
4. Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og ritstjóri fréttabréfs. Skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, hver í sínu lagi. Auk þess skulu líffræðinemar skipa einn fulltrúa í stjórn félagsins.
5. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríl lok ár hvert og skal boðaður skriflega með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
a. Skýrsla stjórnar.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
e. Inntaka nýrra félaga.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál. Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna. Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.
6. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem greitt hafa árgjald. Þeir sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins í tvö ár í röð falla sjálfkrafa út af félagaskrá og teljast þá ekki lengur félagar.
7. Allir félagsmenn hafa aðgang að félagaskrá í gegnum stjórn.
8. Beiðni um afhendingu félagaskrár þarf að hljóta samþykki stjórnar. Að því fengnu verða einungis afhentar persónuupplýsingar um þá félagsmenn sem það samþykkja hverju sinni.
9. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til Vísindasjóðs og verði þeim varið til að styrkja líffræðirannsóknir.


20. árg. 6. tbl. september 1999

MYNDAKVÖLD

Miðvikudaginn 6. október mun Líffræðifélag Íslands standa fyrir myndakvöldi. Þar mun Oddur Sigurðsson sýna myndir af skordýrum og veita örlitla innsýn í heim þeirra.
Myndakvöldið verður haldið í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Skordýr

Oddur Sigurðsson

Myndirnar sem ég ætla að sýna eru allar teknar á Íslandi á síðustu 10 árum. Þar er fyrst og fremst um skordýr og önnur smádýr að ræða, en einnig myndir úr jurtaríkinu. Myndavélin sem ég nota er með 6 X 4.5 cm formati og fást þannig myndir sem henta betur til stækkunar en 35 mm myndir.
Ég fór að taka ljósmyndir 1967 og hefur það aukist stig af stigi síðan. Hef sérstaklega tekið myndir af landslagi og jarðfræðifyrirbrigðum úr lofti og þá jafnan þrívíddarmyndir. Fór að leggja mig eftir skordýraljósmyndum 1988 og hefur áhuginn síst minnkað með árunum. Það hendir varla að ég fari út til að taka myndir og sjái ekki eitthvað nýtt sem kemur skemmtilega á óvart. Þetta er heimur sem er nýstárlegur og næsta framandi fyrir flest venjulegt fólk.

 

 

Ráðstefnufréttir

 

Eins og félögum er væntanlega kunnugt, stendur félagið fyrir stærstu ráðstefnu sinni til þessa, dagana 18.-20. nóvember á Hótel Loftleiðum, í tilefni af 20 ára afmæli félagsins á þessu ári. Ráðstefnan ber yfirskriftina "Líffræðirannsóknir á Íslandi" og verður líklega stærsta íslenska ráðstefnan á sviði rannsókna sem haldin hefur verið en rúmlega 250 tilkynningar um framlög bárust.
Eins og heiti ráðstefnunnar ber með sér er um viðamikið efni að ræða. Fyrirlestrar verða frá morgni til kvölds í tveim sölum samtímis en auk þess verða veggspjöld sýnd alla dagana í þriðja salnum.
Þátttökugjald er kr. 2 000 en kr. 500 fyrir nema. Þátttöku á ráðstefnuna má tilkynna á netfangið arliff@hi.is eða til Líffræðistofnunar Háskólans, b/t Sigurðar S. Snorrasonar, Grensásvegi 11, 108 Reykjavík.
Dagskrá ráðstefnunnar verður birt á heimasíðu Líffræðifélagsins http://www.centrum.is/biologia/

"Líffræðirannsóknir á Íslandi" er kjörið tækifæri fyrir alla áhugamenn um líffræði að kynnast þeim gróskumiklu líffræðirannsóknum sem fram fara á Íslandi um þessar mundir.

 

 

Nemendastyrkur

 

Í tilefni 20 ára afmælis Líffræðifélags Íslands hefur verið ákveðið að félagið styrki einn nema í framhaldsámi til ráðstefnuferðar. Ráðgert er að veita styrkinn við hátíðlega athöfn á afmælisráðstefnu félagsins í nóvember. Ef vel tekst til er ætlunin að styrkur þessi verði veittur árlega, eftir efni og aðstæðum félagsins hverju sinni.

Reglur um nemendastyrk Líffræðifélags Íslands

- Styrkurinn er kr. 40 000- og er úthlutað til að standa straum af kostnaði vegna ráðstefnuferðar á tímabilinu 01.09.1999 - 31.08.2000.

- Allir framhaldsnemar í líffræði eða líffræðitengdu námi, sem eru að vinna að sjálfstæðu rannsóknarverkefni og eru félagar í Líffræðifélagi Íslands, geta sótt um.

- Skilyrði fyrir úthlutun styrksins er að nemandinn kynni verkefni sitt á viðkomandi ráðstefnu á formi fyrirlesturs eða veggspjalds.

Umsóknir skulu innihalda eftirfarandi

1) Vísindagrein um efnið sem kynna á á ráðstefnunni. Lengd hennar skal vera mest 6 A4 blaðsíður (þ.m.t. myndir og heimildaskrá), með minnst 11 punkta letri, línubili 1.5 og 2.5 cm spássíum á alla kanta. Greinin skal fylgja hefðbundinni uppbyggingu með inngangi, efni & aðferðum, niðurstöðum, umræðu og heimildaskrá.

2) Ferilsskrá (curriculum vitae) umsækjanda.

3) Meðmæli um gagnsemi ferðarinnar frá aðalleiðbeinanda.

4) Fjárhagsáætlun verkefnisins undirrituð af leiðbeinanda.

5) Upplýsingar um ráðstefnuna sem sótt er um ferðastyrkinn til (ráðstefnubæklingur eða annað sambærilegt).

- Greinar fara til sérfræðinga á viðkomandi sviði. Skila þeir umsögn um efnistök greinarinnar til dómnefndar, sem samanstendur af þriggja manna (ólaunaðri) nefnd sem tekur endanlega ákvörðun um úthlutun styrksins hverju sinni.

- Umsóknir skulu vera skriflegar og berast pósthólfi félagsins (Pósthólf 5019, 125 Reykjavík) eigi síðar en 25. október 1999.

 

Enn um rukkun félagsgjalda

Eins og frá var sagt á sínum tíma og frægt er orðið urðu mistök við prentun og útsendingu gíróseðla fyrir árgjaldið 1998 sem rukkað var í vor.
Fullháar kröfur voru gerðar á suma, meðan aðrir sluppu mjög ódýrt. Til stóð að leiðrétta þessi mál nú í haust en í ljós hefur komið að bezt fer á því að gera það næsta vor þegar rukkuð verða félagsgjöld fyrir 1999. Vegna þessara mistaka verður enginn felldur út af félagsskránni í ár (yahoo!) og geta því allir hlakkað til að fá að fylgjast með störfum félagsins í vetur.

Póstlisti

Settur hefur verið upp póstlisti fyrir Líffræðifélagið. Ætlunin er að hann flytji félagsmönnum tilkynningar hvers konar frá félaginu á fljótan og skilvirkan hátt. Verið er að ganga frá endanlegu sniði listans, en að því loknu verður send kynning á listanum til þeirra félagsmanna hvers netföng eru félaginu kunn. Kynningu þessari munu fylgja ofureinfaldar leiðbeiningar um hvernig megi skrá sig af listanum, lítizt fólki illa á hann.

Póstlistinn verður s.k. "lokaður" listi, þ.a. stjórn félagsins mun hafa milligöngu um allt efni sem sent er út. Þetta er gert svo að óvandaðir aðilar úti í bæ geti ekki hellt ruslpósti yfir félagsmenn, komizt þeir á snoðir um listann. Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta á engan hátt aftra sér í að senda inn (biologia@centrum.is) tilkynningar, fréttir eða annað sem það telur að erindi eigi við félaga (þó ekki slúðursögur, þótt það væri óneitanlega gaman).

Þeir félagar (og aðrir) hvers netföng eru ekki skráð hjá félaginu verða að bíða næsta fréttabréfs, en þar verða birtar upplýsingar um hvernig megi skrá sig á póstlistann og af honum. Þetta er eins nálægt ritstjóraspjalli og þið komist í þetta skipti vegna plássleysis (aftur?). Lesendur hafa vafalaust átt von á djúpri heimspekilegri vizku (að ekki sé minnzt á innsæi) eftir sumarlanga bið, en það verður að bíða.


20. árg. 6. tbl. apríl 1999. Smelltu hér til að vista. Efst
Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson
Ár í lífi refsins
Páll Hersteinsson prófessor við Háskóla Íslands Refurinn (Alopex lagopus) er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Þótt refaskyttur hafi búið yfir töluverðri þekkingu á lífsháttum þessa dýrs, hófust eiginlegar rannsóknir á refum ekki fyrr en undir lok 8. áratugar þessarar aldar. 
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar rannsóknir og farið víða yfir sviðið. Byggt verður á atferlisrannsóknum á Ströndum og í Hornstrandafriðlandi, fæðuvals- rannsóknum, krufningum til þess að meta líkamsástand, frjósemi og orkubúskap, merkingum til þess að meta far ungra dýra að heiman o.fl. Greint verður frá lífsháttum refsins eftir árstíðum og reynt að skýra hvernig atferli og líkamlegir eiginleikar gera honum kleift að lifa við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum. Hver árstíð hefur sinn vanda sem refurinn þarf að glíma við og milljón ára aðlögun gerir honum það kleift.

Ljósmyndanámskeið

 

Þann 15. og 16. maí nk. mun Líffræðifélagið standa fyrir ljósmyndanámskeiði. Leiðbeinandi verður Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari. Á námskeiðinu verður farið lítillega í grunnatriði ljósmyndunar og að því loknu munu þátttakendur fara út og taka 2 – 3 slidesfilmur á eigin myndavélar. Filmurnar verða framkallaðar, árangurinn skoðaður og hver þátttakandi fær leiðbeiningar um hvað má helst laga. Hámarskfjöldi þátttakenda er 15 manns.
Námskeiðið stendur frá kl. 9:00 – 15:00 laugardaginn 15. maí og 10:30 – 16:00 sunnudaginn 16. maí. Þátttakendur eiga að mæta á ljósmyndastofuna Ímynd, Hverfisgötu 18. Þátttakendur eru beðnir um að koma með myndavél og slidesfilmur. Guðmundur getur útvegað slidesfilmur á kostnaðarverði. Hann mun einnig sjá um framköllun á filmunum. Námskeiðsgjald er 2.000 kr. á mann. Áhugasömum er bent á að tilkynna þáttöku á netfang félagsins biologia@centrum.is eða beint til formanns (gudjon@hafro.is  vs: 552 – 0240, hs: 561- 3715).  Ath. að einungis 15 fyrstu komast að.

 

Aðalfundur Líffræðifélags Íslands


 

Við minnum á aðalfund félagsins þann 21. apríl nk. að Grensásvegi 12, stofu G6 kl. 20:00. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka þannig þátt í störfum félagsins, hitta aðra félagsmenn og njóta með þeim veitinga að fundi loknum.

Ráðstefnufréttir

 

Með síðasta fréttabréfi fylgdi skráningareyðublað fyrir þá sem hafa hug á að senda inn efni á afmælisráðstefnu L.Í. í nóvember. Við hvetjum áhugasama til þess að senda eyðublöðin til Sigurðar S. Snorrasonar, Líffræðistofnun Háskólans, fyrir 15. maí nk.

20. árg. 5. tbl. apríl 1999 Efst
Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson
Tillögur að lagabreytingum

Fyrir aðalfundi liggja fjórar tillögur til lagabreytinga.

1.  Stjórn leggur fram tillögu að breytingu á d lið 5. greinar, sem hljóðar nú svo:
Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda.
Tillaga stjórnar er að liður þessi hljóði:
Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
Greinargerð:  Endurskoðandi er orðið lögverndað starfsheiti og má því enginn kalla sig endurskoðanda nema hafa til þess menntun og leyfi.  Á meðan félagið reiðir sig á sjálfboðaliða innan félagsins til að yfirfara reikninga þess, verður að breyta embættisheiti þessara ágætu sjálfboðaliða.

2.  Stjórn leggur fram tillögu um að núverandi 7. grein skuli framvegis auðkennd sem 9. grein.
Greinargerð:  Núverandi 7. grein er þess eðlis að bezt fer á því að hafa hana síðast.

3.  Stjórn leggur fram tillögu um aði 7. grein hljóði þess í stað svo:
Allir félagsmenn hafa aðgang að félagaskrá í gegnum stjórn.

4.  Stjórn leggur fram tillögu um að 8. grein hljóði svo:
Beiðni um afhendingu félagaskrár þarf að hljóta samþykki stjórnar.  Að því fengnu verða einungis afhentar persónuupplýsingar um þá félagsmenn sem það samþykkja hverju sinni.
Greinargerð um lagabreytingatillögur 3 og 4:  Síðustu mánuði hefir verið uppi nokkur umræða um meðhöndlun félagatals félagsins.  Þykir því ástæða til að setja klausu þar að lútandi í lög félagsins.  Er tilgangur þessa fyrst og fremst að vernda félaga, en einnig stjórn þess, þar eð hún hefði þannig lagalega ástæðu til að neita óviðkomandi um félagatalið.

Netfang – netfang

Til tíðinda bar á dögunum að Líffræðifélagið fékk sitt eigið netfang.  Ekki nóg með það, heldur er það líka komið með slóð fyrir væntanlega vefsíðu.  Fengin hefur verið manneskja sem ætlar að koma heimasíðunni upp, án þess að taka margföld mánaðarlaun meðallíffræðings fyrir. 
Heimasíðan kemur vonandi sem fyrst en á meðan geta félagar farið að senda stjórninni tölvupóst á netfangið biologia@centrum.is
Verið er að vinna að uppsetningu póstlista (listserv) fyrir félagið, svo hægt verði að miðla upplýsingum til félagsmanna með fljótlegum og skilvirkum hætti.  Af því tilefni biður félagið (því það hefur vitund - vissuð þið það ekki?) alla félaga sem netfang hafa að láta stjórninni það í té hafi þeir ekki þegar gert svo

Ritfregn


Nýlega kom út greinasafnið "Íslensk votlendi – verndun og nýting".  Háskólaútgáfan gefur verkið út í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Líffræðifélag Íslands.  Ritstjóri greinasafnsins er Jón S. Ólafsson.  Alls eru 25 greinar eftir 28 höfunda í greinasafninu sem er 283 blaðsíður, skipt í þrjá hluta:  "Yfirlit yfir íslensk votlendi", "Rannsóknir á íslenskum votlendum" og "Verndun - nýting ".  Í fyrsta hlutanum eru greinar sem fjalla almennt um votlendi á Íslandi, vatnafræði votlendis, jarðveg í votlendi og einstaka flokka votlendra svæða, s.s. sjávarfitjar, vötn og jarðhitasvæði.  Annar hlutinn fjallar um niðurstöður nýlegra rannsókna á íslenzkum votlendum í 12 greinum, sem koma meðal annars inn á áhrif framræslu á gróðurfar og fuglalíf, tvær greinar fjalla um áhrif umhverfisbreytinga á flórgoða og greint er frá mikilvægi votlendis fyrir einstaka fuglategundir.  Í síðasta hlutanum, "Verndun - Nýting", er fjallað um verndargildi votlendis, alþjóðlegar skuldbindingar vegna verndunar votlendis, ýmsa nýtingarmöguleika og endurheimt votlendis.   Texti greinanna er skrifaður með það fyrir augum að hann nýtist jafnt leikum sem lærðum.  Verð bókarinnar er kr. 1 980-.  Félagar í Líffræðifélagi Íslands geta fengið bókina með 20% afslætti (kr. 1 584-), þeir sem vilja nýta sér þennan aflátt skulu snúa sér til skrifstofu Fuglaverndarfélagsins að Hlemmi 3.  Þeir sem utan Reykjavíkur búa geta snúið sér beint til Háskólaútgáfunnar (s: 525 4003) og fengið bókina senda.  Takið fram að þið séu félagar í Líffræðifélaginu.

Hér fylgir með efnisyfirlit bókarinnar.

ÍSLENSK VOTLENDI
VERNDUN OG NÝTING
Inngangur Jón S. Ólafsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson

YFIRLIT YFIR ÍSLENSK VOTLENDI
Íslensk votlendi Arnþór Garðarsson
Ár og vötn á Íslandi: Vistfræði og votlendistengsl Hilmar Malmquist
Sjávarfitjar Agnar Ingólfsson
Vatnafræði votlendis Freysteinn Sigurðsson
Flokkun og jarðvegseiginleikar mýra Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson
Jarðhitasvæði Helgi Torfason

RANNSÓKNIR Á ÍSLENSKUM VOTLENDUM
Gróður í framræstum mýrum Borgþór Magnússon
Framræsla votlendis á Vesturlandi Hlynur Óskarsson
Röskun votlendis á Suðurlandi Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jóhann Þórsson, Svafa Sigurðardóttir, Kristín Svavarsdóttir og Magnús H. Jóhannsson
Votlendi sem kvik (dýnamísk) samfélög Rannveig Thoroddsen
Sinubruni og smáliðdýr í jarðvegi í mýri Árni Davíðsson
Þýðing votlendis fyrir fugla Guðmundur A. Guðmundsson
Áhrif framræslu á votlendisfugla Einar Þorleifsson
Fuglalíf og votlendi við Ölfusárós Jóhann Óli Hilmarsson
Keldusvínið - fórnarlamb framræslu og minks Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Hrun flóragoðastofnsins á Íslandi Ólafur K. Nielsen
Dreifing flórgoða á Mývatni í ljósi kísilgúrvinnslu Árni Einarsson
Rannsóknir á Framengjum í Mývatnssveit byggðar á landfræðilegu 
upplýsingakerfi Marcus Casper

VERNDUN - NÝTING
Vernd votlendis Arnþór Garðarsson
Alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga gagnvart verndun votlendis Jón Gunnar Ottósson
Ramsar á Íslandi Gísli Már Gíslason
Skógrækt og votlendi Árni Bragason
Votlendi í virkjunarlónum Hákon Aðalsteinsson
Framræsla mýrlendis Óttar Geirsson
Endurheimt votlendis Þóra Ellen Þórhallsdóttir

Lærið að þekkja plönturnar

Fyrirhugað er að halda fjögurra daga námskeið í plöntugreiningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands næstkomandi sumar ef næg þátttaka verður.  Námskeiðið verður haldið dagana 8. til 11. júlí að Hrafnagili í Eyjafirði í samvinnu við Hótel Vin.  Gisting og fæði á staðnum fyrir þá sem þess óska.
Námskeiðið fer að langmestu leyti fram úti í náttúrunni á gönguferðum um nágrennið, einnig með morgunfyrirlestrum og verklegum leiðbeiningum að dagsferð lokinni.  Námskeiðið hefst um hádegi þess 8., en lýkur með dagsferð þann 11. júlí.  Leiðbeinandi verður Hörður Kristinsson.  Miðað er við 12 – 15 þátttakendur.  Verði þeir fleiri mun þurfa fleiri leiðbeinendur.
Verð á námskeiðinu verður sem hér segir:
1. tilboð:  Kr. 22 500-, innifalin gisting í uppábúnu rúmi miðað við tvo í herbergi ásamt fæði, námskeiðsgjaldi og rútuferð.
2. tilboð:  Kr. 19 800-, innifalin gisting í svefnpokaplássi í skólastofu, ásamt fæði, námskeiðsgjaldi og rútuferð.
3. tilboð:  Kr. 12 000-, námskeiðsgjald og rútuferð án gistingar og fæðis.

Tilboð 3 er miðað við þá sem hugsanlega búa í grennd við staðinn, eða kjósa að gista á tjaldstæði og sjá sér sjálfir fyrir fæði.
Sundlaug og tjaldstæði er á staðnum.  Tilkynna þarf þátttöku sem fyrst, í síðasta lagi í lok apríl, einkum fyrir þá sem ætla að fá gistingu á staðnum.  Nánari upplýsingar gefa Hörður Kristinsson og Sóley Jónasdóttir í síma 462 2983, þátttöku ber að tilkynna á sama stað.  Netfang:  hkris@ni.is

Ráðstefnufréttir

Með þessu fréttabréfi fylgir eyðublað þar sem þeir sem hug hafa á því að senda inn efni á afmæliráðstefnu L.Í. í nóvember geta skráð sig til leiks.  Frestur til að skila þessum eyðublöðum er til 15. maí.
Eins og fram hefur komið er yfirskrift ráðstefnunar “Líffræðirannsóknir á Íslandi” og vonumst við eftir framlögum frá sem flestum líffræðingum og líffræðinemum.  Í því markmiði að ná til sem flestra höfum við fengið tengla í lið með okkur á öllum stærri vinnustöðum líffræðinga.  Þeir ætla að hvetja samstarfsfólk sitt til þátttöku, dreifa og taka við þátttökutilkynningum og veita upplýsingar.

Eftirtaldir hafa þegar tekið að sér að vera tenglar fyrir við undirbúningsnefndina:
Blóðbankinn - Kristbjörn Orri Guðmundsson
Hafrannsóknastofnun - Guðjón Ingi Eggertsson
Háskólinn á Akureyri/Hafró - Hreiðar Þór Valtýsson
Heilbrigðiseftirlit Rvk. - Kristín Lóa Ólafsdóttir
Hollustuvernd - Franklín Georgsson
Hólar - Skúli Skúlason
Iðntæknistofnun - Jakob Kristjánsson
Íslensk erfðagreining - Kristinn P. Magnússon
Keldur - Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
Krabbameinsfélagið - Steinunn Thorlacius
Landgræðslan - Ása L. Aradóttir
Líffræðinemar - Hafdís Hanna Ægisdóttir
MS nemar - Skor/Menja/Róbert
Líffræðistofnun  - Menja/Guðmundur/Sigurður Snorra
Lsp-Litningar/glasafrjvg - Ingileif Jónsdóttir
Lsp-ónæmisfræði - Ingileif Jónsdóttir
Lsp-frumulíffræði - Ingileif Jónsdóttir
Læknadeild – lífefnafr. - Eiríkur Steingrímsson
Náttúrufræðistofnun - Kristinn Haukur Skarphéðinsson
RALA - Hlynur Óskarsson
Rannsóknasetrið í Vestmannaeyjum - Páll Marvin Jónsson
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins - Guðjón Ingi Eggertsson
Rannóknastofa. í veirufræði - Sigríður Elefsen
Samtök Líffræðikennara - Jóhann Guðjónsson
Veiðimálastofnun - Guðni Guðbergsson
Þar sem engir tenglar eru ættu líffræðingar að snúa sér beint til undirbúningsnefndarinnar með spurningar og athugasemdir.
Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar skipa:

Sigurður S. Snorrason formaður, Líffræðistofnun, s:525-4612, sigsnor@rhi.hi.is
Ása L. Aradóttir, Landgræðslunni, s:553-9711, asa.landgr@isholf.is
Guðmundur Eggertsson, Líffræðiskor, s:525-4603, gudmegg@rhi.hi.is
Kristinn H. Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun, s:562-9822, kristinn@ni.is
Kristinn P. Magnússon, Íslenskri erfðagreiningu, s:570-1952, kristinn@decode.is
Menja von Schmalensee, Líffræðifélaginu, s:525-4279, menja@rhi.hi.is
Róbert Arnar Stefánsson, Líffræðifélaginu, s:525-4279, ras@rhi.hi.is
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Keldum, s:567-4700, sibbath@rhi.hi.is

Skelfileg mistök!!!

Ekki linnir vandræðunum með gíróseðlana.  Ekki eru öll kurl enn komin til grafar í því máli og virðist sem eitthvað af gíróseðlunum hafi hreinlega vantað.  Stjórnin er nú að yfirfara þetta mál og mega þeir sem væntu gíróseðils í marz, en fengu eigi, búast við honum í haust.

Íþróttir

Nú fer að líða að vori og sumri með blóm í haga (og sæta langa sumardaga, eins og þar segir).  Af því tilefni þykir ritstjóra fréttabréfs félagsins tími til kominn að stofnaður verði krikketklúbbur á Íslandi.  Í fjölmiðlum heyrist að aukin harka sé í íþróttum hérlendis.  Hvað er þá betra en að bregða sér í krikket, þar sem reglur kveða á um séntilmannlega hegðun, óaðfinnanlegan hvítan klæðnað og tepásur?  (Hættið þessum hlátri strax!).  Að öllu gamni slepptu er krikket mjög skemmtileg íþrótt. Verst er að þá þarf að slá blómin í haga, svo pláss sé til a spila á ...

Nýtt árþúsund?

Stjórn félagsins er þeirrar skoðunar að þeir sem finna sig knúna til að deila um hvort nýtt árþúsund hefjist 1.janúar árið 2000 eða 2001, hafi of mikinn frítíma og þurfi alvarlega að huga að því að finna sér önnur áhugamál.

Fleyg tilvitnun

“When you think about something at 3 o´clock in the morning and then again at noon the next day, you get different answers…”
Snoopy

Næsti fyrirlestur

Margir muna eflaust eftir skemmtilegu og velheppnuðu myndakvöldi Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, Hólmfríðar Sigþórsdóttur og Páls Hersteinssonar í óktóber síðastliðnum þar sem þau sýndu myndir frá refarannsóknum í Hlöðuvík sumarið 1998.  Þriðjudaginn 20. apríl mun Páll Hersteinsson greina hluta af niðurstöðum þessara rannsókna.  Fyrirlesturinn verður í Lögbergi, stofu 101, og hefst kl. 20:00.

Ritstjóraspjall (part deux)

Síðast var fráþví sagt að fólk gerði sér almennt ekki grein fyrir að aldrei hefur tekizt að staðfesta eina einustu frásögn um yfirskilvitleg fyrirbæri, hvað þá sýna fram á tilvist slíkra fyrirbæra, þrátt fyrir áratuga langa sögu dularsálfræðilegra rannsókna.  Eftir gaumgæfilega yfirferð á beztu rannsóknargögnum sem völ er á um slíkt, komst Rannsóknarráð Bandaríkjanna (NRC) árið 1988 að eftirfarandi niðurstöðu.  Rétt þykir að birta frumtextann, hvort sem fleiri eða færri (líklega þó hið fyrrnefnda) skilja hann:
…despite a 130-year record of scientific research on parapsychology, our committee could find no scientific justification for the existence of phenomena such as extra-sensory perception, mental telepathy, or "mind over matter" exercises.
Það þýðir m.a. að hugsanaflutningur er ekki viðurkennd staðreynd, þrátt fyrir að reglulegar fullyrðingar um slíkt í fjölmiðlum.  Sönnunarbyrðin hvílir á formælendum yfirskilvitlegra fyrirbæra. Það er þeirra að sýna fram á tilvist umræddra fyrirbæra, án þess að fara fram á undantekningar á vísindalegri aðferðafræði, en þeir staðhæfa oft að fræði þeirra sé ekki hægt að stunda skv. Reglum þeim og aðferðum sem eðlilegar þykja í öðrum vísindagreinum (en til þeirra vilja þeir þó telja fræði sín).  Hafa þeir komið sér upp eigin tæknimáli til að tjá einstæða hæfileika sína, en hafa fengið mikið af því að láni úr raunvísindum og hafa þannig smám saman fengið á sig yfirbragð þeirra.  Rökhugsun og almenn skynsemi eru þó tæki sem virðast þeim oft framandi, þar sem jafnvel fljótleg skoðun leiðir oft í ljós að ólíklegt sé að staðhæfingar þeirra standizt.  Mest sláandi af öllu er að margir formælendur yfirskilvitlegra fyrirbæra halda því fram að einungis þeir sem aðhyllast slíkt, án nokkurrar forskoðunar, og hafi engar efasemdir um sannleik þeirra, séu færir um að stunda rannsóknir á þeim.  Sannleikurinn er ekki vís með að koma í ljós við slíkar aðstæður.
Regla Occams (Occam´s Razor):  Kennd við heimspekinginn og Guðfræðinginn William of Occam (eða Ockham), sem sagði að "Entia non sunt multiplicanda praeter necessitatem".  (Hluti skal ekki margfalda umfram það sem nauðsynlegt er).  Þetta þýðir að, að öllu öðru jöfnu, sé einfaldasta skýringin líklegust til að vera sú rétta.
Ólafur Patrick (opo@rhi.hi.is)

20. árg. 4. tbl. mars 1999 (Vista) Efst
Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson


Þriðjudaginn 23. marz heldur Hrefna Sigurjónsdóttir fyrirlestur í Lögbergi, stofu 101, kl. 20:00:

Félagshegðun íslenska hestsins
Hrefna Sigurjónsdóttir dósent við Kennaraháskóla Íslands

Vorið 1997 hófst rannsókn á félagshegðun hesta á Skáney í Reykholtsdal.  Áhersla var lögð á að rannsaka samskipti hryssna. Í stóðinu voru margar hryssur , bæði    fylfullar og geldar, en líka tryppi og geldingar, alls 34 einstaklingar auk 9 folalda sem bættust við á tímabilinu.  Með rannsókninni er vonast til að bæta nokkuð úr þeim skorti sem hefur verið á rannsóknum á hegðun íslenska hestsins.  Hesturinn er í eðli sínu mikil félagsvera sem flýr undan hættu og leitar í hópinn sér til varnar.  Búast má við að  íslenska hestakynið sýni ýmis konar félagshegðun sem eru horfin úr öðrum kynjum vegna meiri ræktunar, minna frelsis og skorti á tækifærum að alast upp í félagskap margra annarra.  Áhugavert er því að bera hegðun íslenska hestsins saman við hegðun villtra hesta sem gengið hafa sjálfala í Bandaríkjunum í langan tíma þó ekki sé um sambærileg stóð að ræða því þar fá graðhestarnir að vera frjálsir og keppa um hryssurnar.

Hegðun hestanna í stóðinu var skráð með hjálp tölvu allan sólarhringinn frá 16. maí  þar til 18. júní og hluta hópsins lengur eða til 22. júní.  Hegðun hryssnanna var flokkuð og tímamæld og tíðni mismunandi samskipta milli nafngreindra einstaklinga stóðsins var skráð. Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka hegðun sem flokkast undir íhlutun,  þ.e.a.s. þegar einn blandar sér í samskipti annarra eða ver einhvern fyrir ágangi.  Hestamenn hér á landi þekkja  slíka hegðun en henni hefur ekki verið lýst meðal annarra hestakynja.

Um mjög viðamikil gögn er að ræða og hefur margt mjög áhugavert komið í ljós.   Hestarnir höfðu mikil samskipti;  þeir kljáðust, léku sér, ógnuðu hverjir öðrum, slógust, sýndu ýmis konar kynhegðun og skiptu sér af öðrum sem voru að leika sér eða kljást og einnig vörðu sumir merar með ung folöld. 
Öll hrossin áttu sérstaka félaga eða vini en vinátta var metin út frá því hversu mikið og við hverja þau  kljást. Eins og hjá mönnunum er þó mjög misjafnt hversu vinamörg þau voru. Algengt var að sjá hrossin leika sér.  Þeir sem léku sér mest voru geldingar og veturgömul hesttryppi, síðan komu folöldin en merartryppin léku sér mjög lítið og fullorðnu merarnar svo að segja ekkert.

Reiknuð var út virðingaröð sem byggð var á bæði ógnunaratferli og merkjum um undirgefni.  Ekki var um fullkomna línulega röð að ræða en greinilegt hverjir voru ofarlega, um miðbikið og neðarlega.  Merarnar ríktu nær undantekningarlaust yfir geldingunum og tryppunum.  Jákvæð tengsl voru á milli stöðu í virðingaröð og aldurs og gæti það reyndar skýrt hvers vegna merarnar voru ofar en hinir. 
Mjög var það einstaklingsbundið hvort og hve mikið hrossin skiptu sér af samskiptum annarra og tiltölulega fá hross sýndu slíka íhlutun.  Örfáar hryssur vörðu merar með ungt folald en þrjár þeirra, ein 2ja vetra og tvær fylfullar merar, hegðuðu sér oft á þennan máta.  Merarnar skiptu sér svo að segja aldrei af öðrum sem voru að leika sér og sjaldan þegar þeir voru að kljást en geldingarnar og tryppin sáust oft trufla aðra. 
Fjögur ógelt veturgömul hesttryppi voru í stóðinu og sýndu þau merum í látum mikinn áhuga.  Það gerðu sumir geldingarnir einnig. Einkennilegra þótti okkur  að fimm fylfullar merar sýndu slíka hegðun og er áhugavert að velta fyrir sér hver ástæðan getur verið.  Þessi hegðun hjá íslenskum hryssum er þekkt en henni hefur ekki verið lýst meðal annarra hestakynja.

Að rannsókninni standa Hrefna Sigurjónsdóttir,  Kennaraháskóla Íslands, Anna Guðrún Þórhallsdóttir,   Búvísindadeild  Bændaskólans á Hvanneyri, Ingimar Sveinsson fyrrum kennari við Bændaskólann á Hvanneyri og Machteld van Dierendonck, sjálfstætt starfandi sérfræðingur frá Hollandi.  Vísindasjóður, Kennaraháskóli Íslands, Bændaskólinn á Hvanneyri og hjónin á Skáney styrktu rannsóknina.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins verður haldinn 21. apríl nk.  Skriflegar tillögur að lagabreytingum skulu hafa borizt í félaginu fyrir 1. apríl.  Núverandi stjórn gefur kost á sér áfram utan Kristínar Lóu Ólafsdóttur ritara. Félagsmenn eru hvattir til að gefa kost á sér!

Fréttir af afmælisráðstefnu


Annar fundur undirbúningsnefndar vegna afmælisráðstefnu félagsins var haldinn 12. marz sl.  Helztu fréttir eru að ákveðið var að þeir sem hafa hug á að flytja erindi eða vera með veggspjald á ráðstefnunni skuli tilkynna það fyrir 15. maí nk.  Þar til gert skráningareyðublað verður sent félagsmönnum fyrir lok marz.

Netfang félagsins


Ráðgert var að birta netfang félagsins í þessu tölublaði. Ekki tókst þó að ganga frá því í tæka tíð. Nánari fréttir af netvæðingu félagsins mun birtast í næsta tölublaði.

Ritstjóraspjall


Hinn indverzki yogi og guru Sai Baba (Sathyanarayana Ratnakaru Raju) og undraverðir hæfileikar hans hafa verið nokkuð til umfjöllunar í íslenzkum fjölmiðlum undanfarið.  Við heyrum aðdáendur hans staðhæfa að hann geti búið til "vibhuti" (heilaga ösku/olíu), gullhringi og jafnvel armbandsúr einfaldlega með því að rétta hönd sína út í loftið, að hann hafi reist fólk upp frá dauðum, svifið í lausu lofti og læknað alvarlegustu sjúkdóma, ásamt fleiri undrum.
Mest gremst mér þó, að borið hefur á þeirri staðhæfingu í umfjöllun þessari að vísindamenn hafi enga skýringu getað fundið á undraverðum hæfileikum Sai Baba.  Mun það vera rétt, svo langt sem það nær, en hitt er látið ósagt að Sai Baba hefur raunar aldrei leyft prófun á hæfileikum sínum við kontrólleraðar aðstæður.  Skoðun á kvikmyndum og myndbandsupptökum af undrum hans sýnir hins vegar að þar er um einföld töfrabrögð og sjónhverfingar að ræða, hin sömu og indverzkir götutöframenn hafa leikið um árabil, vegfarendum til skemmtunar.
Indverzki töframaðurinn B. Premanand er áhugamaður um almenna vísindafræðslu og -læsi og situr í stjórn Indian Skeptics.  Hefur hann leikið eftir öll undur Sai Baba og heldur fyrirlestra á Indlandi og víða um heim, þar sem hann sýnir þessi brögð og útskýrir hvernig indverzkir fakírar og "kraftaverkamenn" fara að því að blekkja áhorfendur sína.  Rétt er að taka fram að sú staðreynd að töframenn geti leikið yfirskilvitleg fyrirbæri eftir sannar hvorki né afsannar eitt né neitt um tilvist slíkra fyrirbæra, utan það að auðveldlega megi leika þau nákvæmlega eftir með blekkingum.  Áhorfendur með a.m.k. meðalgreind og -eftirtekt má m.ö.o. auðveldlega blekkja.  Vísindamenn eru þar engin undantekning og er það m.a. ástæðan fyrir því að töframaður er ávallt með í ráðum, þegar skoða skal staðhæfingar um yfirskilvitleg fyrirbæri.  Regla Occams ætti því að vera mönnum  efst í huga við slíkar aðstæður.
Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir að aldrei hefur tekizt að staðfesta eina einustu frásögn um yfirskilvitlegt fyrirbæri í þau u.þ.b. 130 ár sem þau hafa verið rannsökuð. Meira um það næst.

Erratum

*Félagsmenn hafa eflaust tekið eftir því að gíróseðill sá sem fylgja átti með síðasta blaði gerði það ekki. Ástæða þessa var sú að fyrir mistök voru gíróseðlarnir með gjalddaga 2019. Fylgir hann því hér með.


20.árg 3.tbl. febrúar 1999 Efst
Ábm: ÓPÓ

Príonsjúkdómar í mönnum og dýrum - áhrif arfgerða príongensins.
Stefanía Þorgeirsdóttir
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.


Riða í sauðfé er einn af svokölluðum príonsjúkdómum, en aðrir þekktir príonsjúkdómar eru Creutzfeldt-Jakob og Kuru í mönnum, og kúariða (BSE) í nautgripum. Þessir sjúkdómar eru ólæknandi en einkennandi fyrir þá eru skemmdir á taugakerfi, sem verða vegna uppsöfnunar á smitefninu í heila sjúklinganna. Orsakavaldurinn er nú talinn vera smitandi prótein, en ekki veira eða baktería, því ekkert erfðaefni hefur fundist í smitefninu. Ákveðið gen sem finnst í erfðamengi allra spendýra, svokallað príongen, ber forskrift þess próteins sem á umbreyttu formi er talið valda sjúkdómnum. Þegar einstaklingur verður fyrir smiti, kemur hið umbreytta prótein af stað keðjuverkun þannig að príonprótein þess sem sýkist komast einnig á umbreytt og sýkjandi form og svo koll af kolli. 
Í príongenum bæði manna og nokkurra dýrategunda hefur fundist basabreytileiki og stökkbreytingar sem skipta máli fyrir príonsjúkdóma. Í mönnum til dæmis ræður breytileiki í tákna 129 í príongeninu næmi fyrir Creutzfeldt-Jakob sjúkdómnum, bæði stökum tilfellum og vegna smits. Í sauðfé hins vegar eru það aðallega amínósýrur nr. 136, 154 og 171 í príonpróteininu sem virðast skipta máli fyrir smitnæmi. Undanfarin ár hafa farið fram á Keldum, rannsóknir á breytileika príongensins í íslensku sauðfé og hugsanleg áhrif hans á næmi þess fyrir riðu. Vissar arfgerðir af príongeninu eru algengari í sauðfé sem veikst hefur af riðu en í heilbrigðu fé. Niðurstöðurnar benda því til að hægt sé að kynbæta fé til að minnka líkurnar á að það veikist af riðu. 
Í erindinu verður leitast við að gefa yfirlit yfir helstu príonsjúkdómana sem eru þekktir í mönnum og dýrum og sagt frá niðurstöðum rannsókna, bæði erlendis og hér á landi, á því hvernig breytileiki í príongeninu getur skipt máli fyrir smitnæmi og sjúkdómsmynd.

Rukkun félagsgjalda


Með þessu fréttabréfi fylgir gíróseðill fyrir árgjaldi félagsins árið 1998.  Á aðalfundi 1998 var samþykkt að árgjald yrði 900 kr.  Gjaldkeri biður alla að bregðast vel við og greiða gjaldið hið fyrsta.  Fyrirséð er að þetta ár verði félaginu kostnaðarsamt.  Meðal útgjaldaliða má nefna netvæðingu félagsins, kostnað við fyrirlestra og síðast en alls ekki sízt, afmælisráðstefnu og fagnað í nóvember.
Glatt er skuldlaust hjarta, gjaldkeri?

Ritstjóraspjall


Nú á ég eftir að fá það óþvegið, en samt sem áður …
Þau ummæli stjórnvalda að Íslendingar séu sjálfum sér samkvæmir með því að undirrita ekki Kyoto sáttmálann er vafalaust rétt - bara ekki á þann hátt sem þau halda.  Íslenzk stjórnvöld eru sjálfum sér samkvæm, þar sem þau hafa á undanförnum árum ítrekað sýnt umhverfinu og umhverfisvernd mikið virðingaleysi (að fela sama ráðherra umsjón landbúnaðar- og umhverfismála var strax ills viti).  Ítrekað er horft til stundargróða í stað langtímahagsmuna og höfðað til "sérstöðu Íslands" - þeirrar gamalreyndu afsökunar.  Ekki er hins vegar lengur unnt að taka tillit til "sérstöðu" þegar hætta er á vistfræðislysi á heimsvísu.  Umhverfismál teljast ekki lengur einkamál einstakra ríkja. 
Mörg s.k. þróunarríki eru ósátt við að þurfa að takmörka losun gróðurhúsalofttegunda og finnst að hér sé um að ræða efnahagslega nýlendustefnu iðnríkjanna.  Er von á góðu sjái þau eitt ríku landanna neita að staðfesta Kyoto sáttmálann vegna þess að það telur það gagnstætt hagsmunum sínum?  Ef allir höguðu sér þannig, er hætt við að Kyoto sáttmálinn yrði lítið nema gagnslítill og útvatnaður málamiðlunarpappír.  Vel má vera að sú verði niðurstaðan engu að síður, en það væri efni í aðra grein.  Bent er á að þótt Ísland sé yfir CO2 losunarmörkum miðað við höfðatölu, sé heildarlosunin minni en t.d. Bandaríkjanna.  M.t.t. íbúatölu landanna tveggja er sú staðreynd tvímælalaust fagnaðarefni, en eiga þetta vera alvöru rök fyrir umræddri ákvörðun?  Bent er á að aukið atvinnuleysi, launalækkun og skerðing lífskjara fylgdu í kjölfarið, staðfestu Íslendingar samkomulagið.  Ég býst þá við að þetta verði ekki vandamál gangi spár um loftslagsbreytingar eftir. 
Þarf frekari vitnanna við, en stjóenvaldsákvarðanir sem þessar, efist fólk um hættu þá sem stafar af almennu vísindaólæsi í þjóðfélaginu? (Já, stjórnmálamenn eru upp til hópa vísindaólæsir - skelfileg tilhugsun í nútíma þjóðfélagi, ekki satt?).  Eru nú tilfinningaleg rök að bera mig ofurliði?  Ef til vill, en er það nokkur furða?  Óábyrgar, illa ígrundaðar og pólitískar ákvarðanir sem þessar gera mér gramt í vægast sagt gramt í geði - og þar við situr.  (Hrmph!).
Því fyrr sem þjóðir heims fela heimsambandsstjórn meðferð sameiginlegra hagsmuna, s.s. umhverfismála, því betra - en það væri efni í þriðju greinina*.

Ólafur Patrick (opo@rhi.hi.is)

*  Áhugasamir geta skoðað heimasíður World Federalist Movement
(http://www.worldfederalist.org/) og World Federalist Association
(http://www.wfa.org/).

Afmælisráðstefna Líffræðifélagsins


Í desember næstkomandi verður Líffræðifélag Íslands 20 ára.  Stjórn félagsins hefur ákveðið að halda upp á afmælið með viðeigandi hætti og boðar til afmælisráðstefnu í haust.  Ætlunin er að horfa vítt og breytt yfir líffræðina og við vonum að allir geirar og afkimar líffræðinnar eigi sína fulltrúa á þessari ráðstefnu.  Hún ber því yfirskriftina “Líffræðirannsóknir á Íslandi”.  Þar sem þetta verður væntanlega viðamesta ráðstefna félagsins, enn sem komið er, höfum við fengið Líffræðiskor og Líffræðistofnun H.Í. til að standa að ráðstefunni með okkur.  Ráðstefnan verður haldinn föstudaginn 19. og laugardaginn 20. nóvember að Hótel Loftleiðum.  Undirbúningsnefnd hefur verið mönnuð og hana skipa:
Ása L. Aradóttir, Guðmundur Eggertsson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Kristinn P. Magnússon, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Sigurður Snorrason og Menja von Schmalensee/Róbert A. Stefánsson.
Nefndin hefur þegar hafið störf, farin að leggja línurnar og hefur ákveðið eftirfarandi:
Ráðstefnan verður öllum opin.
Á ráðstefnunni verður boðið upp á fyrirlestra og veggspjaldakynningar.
Þeir er hyggjast kynna efni þurfa að skila inn þátttökutilkynningu í síðasta lagi 15. maí. Á henni skal koma fram hvort kynna á efni með erindi eða veggspjaldi og heiti efnis.  Síðar í vetur mun þátttökueyðublað fylgja fréttabréfi félagsins.  Undirbúningsnefndin áskilur sér rétt til að breyta fyrirlestri í veggspjald, og öfugt, ef ástæða þykir til eða nauðsyn krefur. 
Ráðstefnugjöld verða 1000 kr., 500 kr. fyrir stúdenta.
Allar upplýsingar munu að sjálfsögðu verða birtar í fréttabréfinu um leið og þær liggja fyrir.  Vonir standa til að netvæðingu félagsins verði lokið í apríl og verður þá að sjálfsögðu hægt að sækja allar upplýsingar og skrá þátttöku á heimasíðu félagsins.

Ljósmyndanámskeið


Nú eru nokkur ár síðan félagið stóð fyrir ljósmyndanámskeiði.  Því fannst stjórninni tilvalið að leita á ný til Guðmundar Ingólfssonar hjá Ljósmyndastofunni Ímynd.  Hann tók vel í að hafa námskeið fyrir félaga og verður það líklega í maí.  Nánari upplýsingar birtast í fréttabréfinu síðar.

Næsti fyrirlestur


 

Næsti fyrirlestur verður þriðjudaginn 23. marz.  Þá mun Hrefna Sigurjónsdóttir, dósent við K.H.Í. flytja fyrirlestur sem hún nefnir:
“Félagsatferli íslenska hestsins”  Fyrirlesturinn verður haldinn í Lögbergi, stofu 101 og hefst kl. 20:00.

20.árg 2.tbl. febrúar 1999 Efst

Lífræn ræktun - búskapur í sátt við umhverfiðÞróun landbúnaðar á 20. öldinni, þó einkum á seinni hluta hennar, hefur auk tæknivæðingar byggst mjög á efna- og lyfjavæðingu framleiðslunnar í þeim tilgangi að hún sé sem mest og notendur fái matvæli á sem lægstu verði.  Í mörgum tilvikum hafa umhverfis- og búfjárverndarsjónarmið, og jafnvel hollustusjónarmið, verið sniðgengin og sveitabyggð hefur stöðugt dregist saman.  Lengst nær sú þróun í svokölluðum verksmiðjubúskap.  Vankantar þessara breytinga eru að verða æ ljósari víða um heim og er verið að leita nýrra leiða í sátt við umhverfið.  Hefur athyglin m.a. beinst að lífrænni ræktun og þeim búskap sem henni tengist, einkum undanfarin 20-30 ár.  Sú vakning gerði þó lítið vart við sig hér á landi fyrr en á þessum áratug.  Í erindinu verður greint frá nokkrum undirstöðuatriðum lífrænnar ræktunar með tilvísun í frumkvöðla á borð við Rudolf Steiner í Austurríki, Eve Balfour í Bretlandi og Sesselju Sigmundsdóttur á Sólheimum í Grímsnesi.  Þá verður vikið að skilyrðum til lífræns búskapar hérlendis, alþjóðlegum og innlendum reglum um lífræna framleiðslu, eftirliti og vottun, faglegu og félagslegu starfi til eflingar lífrænum búskap og markaðsmálum, þar sem saman fara sjónarmið bænda og neytenda í anda sjálfbærrar þróunar.  Þætti lífræns búskapar í alhliða umhverfisvernd og vistmenningu (permaculture) verða gerð nokkur skil frá sjónarhóli grænnar hugmyndafræði og varpað fram hugmyndum í ljósi íslensks raunveruleika.  Því ætti efni erindisins að höfða til margra líffræðinga og einnig til ýmissa utan raða þeirra.

Félagsgjöld

Gjaldkeri vill nota tækifærið til að minna félagsmenn á að greiða félagsgjöldin.  Allmargir eiga enn eftir að greiða gíróseðla sem sendir voru út í marz á síðasta ári.  Það er ekkert gamanmál að falla út af félagaskrá vegna skulda!

Lög Líffræðifélags Íslands


Aðalfundur Líffræðifélagsins verður haldinn í apríl.  Lögin eru birt hér til kynningar fyrir félaga.  Skriflegar lagabreytingartillögur ásamt greinargerð skulu berast félaginu fyrir 1. apríl næstkomandi.

1. Félagið heitir Líffræðifélag Íslands.  Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.

2. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.

3. Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.

4. Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og ritstjóri fréttabréfs.  Skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, hver í sínu lagi.  Auk þess skulu líffræðinemar skipa einn fulltrúa í stjórn félagsins.

5. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríl lok ár hvert og skal boðaður skriflega með tveggja vikna fyrirvara.  Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 
a. Skýrsla stjórnar.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda.
e. Inntaka nýrra félaga.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál.
Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna.  Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.

6. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins.  Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem greitt hafa árgjald.  Þeir sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins í tvö ár í röð falla sjálfkrafa út af félagaskrá og teljast þá ekki lengur félagar.

7. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til Vísindasjóðs og verði þeim varið til að styrkja líffræðirannsóknir.

Viltu starfa fyrir félagið?

Eins og fram kemur hér að framan er stjórn félagsins kosin á aðalfundi og til eins árs í senn.  Öllum félagsmönnum er frjálst að gefa kost á sér til starfa fyrir félagið.  Því er rétt fyrir félaga að leiða hugann að því hvort þeir hafa áhuga á að gefa sig fram til starfa.  Ef fleiri en einn gefa kost á sér í tiltekið embætti, verður kosið á milli þeirra.  Ef engin framboð berast í lausar stöður áskilur stjórnin sér rétt til að leita eftir því við einstaklinga að þeir gefi kost á sér.Frá formanni


 

Ég hef fregnað að sú ákvörðun mín að afhenda Össuri Skarphéðinssyni, félagaskrána, að hans beiðni, hafi valdið óánægju meðal a.m.k. nokkura félagsmanna.  Mér var það ljóst að Össur hugðist senda líffræðingum í Reykjavík bréf til kynningar á sér fyrir nýafstaðið prófkjör.  Mér var einnig ljóst að félagar yrðu eflaust mishrifnir af þessari ákvörðun.
Af þessu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram:
Félagaskrá Líffræðifélagsins er ekki leyndarmál og engin ákvæði í lögum félagsins um meðferð hennar.  Í vetur hefur verið rætt um það í stjórn félagsins, hvort rétt væri að dreifa félagaskránni með fréttabréfinu.  Þær vangaveltur voru lagðar á hilluna m.a. vegna umfangs félagaskrárinnar og fyrirsjáanlegs kostnaðar. 
Ég taldi mér því ekki stætt á því að synja beiðni Össurar, enda Össur félagi í L.Í.  Þessa ákvörðun tók ég einn og án samráðs við stjórnina. 
Vera má að ástæða sé til að setja í lög félagsins ákvæði um notkun félagskrárinnar.  Í því sambandi er bent á að aðalfundur félagsins er í apríl.
Guðjón.

Næsti fyrirlestur


 

Næsti fyrirlestur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 10. marz.  Þá mun Stefanía Þorgeirsdóttir flytja fyrirlestur sem hún nefnir: 
Príon sjúkdómar í mönnum og dýrum – áhrif arfgerða príongensins.

20.árg. 1.tbl. febrúar 1999 Efst
Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson

Fuglar og fuglaljósmyndunJóhann Óli Hilmarsson heldur mynda- og fræðslukvöld á vegum Líffræðifélagsins fimmtudaginn 11. febrúar næstkomandi.  Þá mun Jóhann Óli kynna galdra fuglaljósmyndunar fyrir gestum.  Mun hann stikla á stóru varðandi tækni (myndavélar, linsur, filmur, þrífætur, felutjöld o.s.frv.), myndbyggingu og aðra leyndardóma iðju sinnar og verður umfjöllunin byggð á skyggnum úr safni hans.
Jóhann Óli Hilmarsson hefur stundað fuglaljósmyndun um skeið og hafa myndir hans birst víða í blöðum, bókum, á póstkortum, vefsíðum og á ýmsum öðrum vettvangi, jafnt hér á landi sem erlendis.  Hann myndar líka ýmislegt annað í hinni margþættu íslensku náttúru, þ.á.m. spendýr, stór og smá.Ritfregn
Innan fárra vikna kemur út greinasafnið "Íslensk votlendi - verndun og nýting".  Útgefandi er Háskólaútgáfan í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Líffræðifélag Íslands.  Ritstjóri er Jón S.Ólafsson.  Ritið er gefið út í framhaldi af samnefndri ráðstefnu Líffræðifélagsins og Fuglaverndarfélags Íslands, sem haldin var dagana 22.-23. apríl 1994.
Í ritinu, sem er alls 283 bls., verða 25 greinar eftir 28 höfunda og verður því skipt í þrjá hluta:

1) yfirlit um íslenzk votlendi
2) rannsóknir á íslenzkum votlendum og
3) verndun og nýting votlendis

Stefnt er að því að áhugasamir félagar í Fuglaverndarfélaginu og Líffræðifélaginu geti keypt ritið á hagstæðu verði (nánar auglýst síðar), en reynt verður að halda almennu smásöluverði þess innan við 2000 krónur.Ritstjóraspjall
Stjórn Líffræðifélags Íslands vill byrja árið á að óska félagsmönnum öllum gleðilegs og góðs nýs árs.  Í tilefni nýhafins árs er vert að minna á að franski læknirinn, skáldið og svikahrappurinn Michel de Notredame (Nostradamus, þið vitið) ritaði á sínum tíma:

L´an mil neuf cens nonante neuf sept mois
Du ciel viendra grand Roi deffraieur
Rususciter le grand Roy d´Angolmois.
Avant apres Mars regner par bon heur.

eða

Árið 1999 og sjö mánuðir
Kemur konungur óttans af himni
Að endurvekja hinn mikla konung Mongóla.
Áður og síðar mun Mars ríkja, fyrir góða heppni.

Þrátt fyrir þetta hefur stjórn félagsins ekki í hyggju að fela sig undir rúmi í júlí og hvetur félagsmenn þess í stað að vera öðrum fordæmi og nota mánuðinn til hollrar og líffræðilegrar útivistar.
Þeim sem vilja fræðast nánar um feril Nostradamusar sem svikahrapps og lítt áreiðanlegs spámanns skal bent á bókina "The Mask of Nostradamus" (Prometheus Books, 1993) e. James Randi, töframann og baráttumann fyrir almennri skynsemi.  Lítið einnig endilega á heimasíðu James Randi Educational Foundation, http://www.randi.org/

Ólafur Patrick (opo@rhi.hi.is)Auglýst eftir gömlum gögnum félagsins
Það er vel þekkt vandamál hjá félögum sem hafa ekkert fast heimilisfang að gögn þeirra eru á eilífu flandri á milli stjórna.  Gögnin eru oft geymd í pappakössum sem enda ýmist á skrifstofum eða heimilum stjórnarmanna.  Síðastliðið vor barst félaginu bréf frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.  Efni bréfsins var “Varðveisla heimilda um Reykjavík”.  Þar lýsir Borgarskjalasafn þeim áhuga sínum að fá til varðveislu bréf, fundargerðabækur, fréttabréf og annað útgefið efni, sjóðsbækur, ársreikninga og önnur fróðleg skjöl.  Skjöl félaga eru heimildir um félögin og forða þeim frá gleymsku.  Til boða stendur að starfsmaður safnsins fari yfir skjölin og verði félaginu innan handar um hvað skuli varðveita.  Borgarskjalasafn býðst til að bera kostnað sem hlýst af frágangi afhentra skjala í viðeigandi umbúðir, skráningu þeirra og varðveislu í traustum geymslu safnsins.  Félagið fengi lista yfir þau gögn sem það afhendir og hefðu félagar fullan aðgang að þeim.
Stjórn L.Í. telur að þarna sé kominn kjörinn staður til varðveislu skjala þess.  Einkum hugsum við um bréf félagsins, fundargerðabækur og ársreikninga.  Einnig tel ég að ráðlegt að þarna verði geymd rausnarleg gjöf Karls Skírnissonar til félagsins, en á aðalfundi 1997 færði hann félaginu öll fréttabréf og ráðstefnurit fyrstu 15 ára félagsins, innbundin af honum sjálfum.  Sárt ef þessi góða gjöf týndist í einhverjum kassa, engum til gagns.  Augljóst má vera mikilvægi þess að skjöl félagsins séu til í varanlegri geymslu.  Þá er mikið hagræði af því að stjórnarfólk svo og félagsfólk geti gengið að þessum skjölum á einum og vísum stað.  Því skora ég á alla sem hafa gögn frá félaginu uppi í hillu eða í kassa að hafa samband við undirritaðan svo hægt verð að huga að framtíðarvarðveislu þeirra.
Þeir félagar sem hafa áhuga á að segja sína skoðun á þessari hugmynd eru beðnir að hafa samband við undirritaðan eða senda félaginu bréf í pósthólf þess.

Guðjón.  (gudjon@hafro.is)
s:561-3715 Næsti fyrirlesturNæsti fyrirlestur félagsins verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar.  Þá mun Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur, fjalla um lífræna ræktun á Íslandi.

 

Fréttabréf nóvember 1998 Efst


 

Félaginu barst snemmsumars erindi frá Félagi raungreinakennara og Samtökum líffræðikennara, þar sem vakin var athygli á fyrirhuguðum breytingum á námsskrá fyrir framhaldsskóla.  Í stuttu máli mun ætlunin að draga úr umfangi raungreinakennslu á mála- og félagsfræðibrautum framhaldsskóla.  Í stað 12 eininga nú komi “6 eininga heilstætt en þverfaglegt náttúrufræðinám”, svo sem segir í bæklingi Menntamálaráðuneytisins “Betri skóli”.  Tók stjórn félagsins málið fyrir á fyrsta fundi starfsársins, þar sem ákveðið var að senda menntamálará�

window.print();