1. Félagið heitir Líffræðifélag Íslands.Heimili þess og varnarþing eru í Reykjavík.

2. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á líffræði, að auðvelda samband og skoðanaskipti milli félaga sinna og að auðvelda tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál.

3. Félagar geta orðið allir þeir sem áhuga hafa á líffræði og vilja stuðla að framgangi hennar.

4. Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og ritstjóri fréttabréfs. Skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, hver í sínu lagi. Auk þess skulu líffræðinemar skipa einn fulltrúa í stjórn félagsins.

5. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríl lok ár hvert og skal boðaður skriflega með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

a. Skýrsla stjórnar.
b. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda.
e. Inntaka nýrra félaga.
f. Ákvörðun félagsgjalda.
g. Önnur mál.

Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna. Tillögur til lagabreytinga skulu fylgja fundarboði.

6. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem greitt hafa árgjald. Þeir sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins í tvö ár í röð falla sjálfkrafa út af félagaskrá og teljast þá ekki lengur félagar.

7. Allir félagsmenn hafa aðgang að félagaskrá í gegnum stjórn.

8. Beiðni um afhendingu félagaskrár þarf að hljóta samþykki stjórnar. Að því fengnu verða einungis afhentar persónuupplýsingar um þá félagsmenn sem það samþykkja hverju sinni.

9. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til Vísindasjóðs og verði þeim varið til að styrkja líffræðirannsóknir.

Samþykkt á aðalfundi 1999