Líffræðirannsóknir á Íslandi 2011 - viðurkenningar

Á ráðstefnu Líffræðifélags Íslands sem haldin var 11.- 12. nóvember veitti Líffræðifélag Íslands tveimur íslenskum vísindamönnum heiðursverðlaun. Halldór Þormar fær viðurkenningu fyrir farsælan feril og Bjarni K. Kristjánsson viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns.

Ljósmynd. Halldór Þormar (t.v.) og Bjarni K. Kristjánsson (t.h). Mynd Arnar Pálsson, copyright.

Halldór Þormar veirufræðingur og prófessor emeritus við líf og umhverfisverðlaunadeild Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna. Halldór stundaði góðar rannsóknir á mæði-visnuveirunni eftir að Björn Sigurðsson réð hann til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum árið 1957. Þá höfðu mæði og visna herjað á íslenskt sauðfé, og Björn sett fram þá tilgátu að orsakirnar væru hæggengar veirur. Halldór lýsti, í erindi sem hann hélt á líffræðiráðstefnunni 11. nóvember 2011, rannsóknum sem sýndu að visna væri vegna veirusmits. Í nákvæmum tilraunum smitaði hann kindafrumur í rækt með síuðu floti úr heilum sýktra kinda. Veiruagnir voru einangraðar úr ræktinni og sýnt fram á að þær dugðu til að smita kindurnar aftur af visnu. Halldór rifjaði upp þessar tímamótarannsóknir af kímni og hógværð - "hver sem er gat gert þetta" var viðkvæðið. Stjórn Líffræðifélagsins ályktaði hins vegar að ævistarf Halldórs væri veigameira en flestra og hann hlaut því viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna.

Rannsóknir sýndu síðar að mæði og visna eru náskyldar veirur, og þær voru fyrstu fulltrúar hóps veira sem kallaðar eru lentiveirur. Þekktasta veiran í ættkvíslinni er eyðniveiran (e. Human Immuno Deficiency Virus ) eða HIV-veiran sem uppgötvaðist fyrst í byrjun níunda áratugarins. Nú eru miklar rannsóknir stundaðar á mæði-visnu veirunni á Keldum þar sem hún nýtist til að skilja líffræði HIV og alnæmis. Halldór Þormar lauk mag. scient. prófi í frumulíffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1956. Hann stundaði framhaldsnám í veirufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1957-1958 og á þeim árum stundaði hann rannsóknir við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum, 1957-1960 og síðan aftur 1962-1967. Hann hlaut doktorspróf í veirufræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1966. Halldór stundaði um árabil rannsóknir í New York, en sumpart er ferill hans áþekkur ferli heimshornaflakkarans og teiknimyndahetjunnar Tinna. Halldór hefur nefnilega einnig starfað við Cambridge-háskóla og háskóla og stofnanir í Belgíu, Venezúela, Kína og Danmörku. Árið 1986 var hann ráðinn prófessor í frumulíffræði við líffræðiskor Háskóla Íslands, kenndi þar við góðan orðstír og stundaði vandaðar rannsóknir. Síðustu áratugi hefur Halldór kannað áhrif fitu og sápuefna á veirur og aðra sýkla, sem er sérstaklega mikilvægt viðfangsefni nú þegar mannkynið hefur ofnotað hin klassísku sýklalyf. Halldór ritstýrði bók um þetta fræðasvið, sem kom út hjá hinu virta forlagi Wiley í ársbyrjun 2011.

Stjórn líffræðifélagsins ákvað einnig að heiðra líffræðing sem lokið hefur doktorsprófi á síðustu 5 árum, og þykir hafa byrjað rannsóknaferil af miklum krafti. Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum hlaut verðlaunin, því hann hefur gert mjög snjallar rannsóknir á sviði vistfræði og þróunarfræði og birt um þær 22 greinar á stuttum ferli. Ein vísbending um dugnað hans er að nú í ár var hann 39 ára gamall skipaður prófessor við Háskólann á Hólum.

Bjarni er útskrifaður Flensborgari og lauk BS-prófi 1994 og fjórðaársverkefni 1997 frá líffræðiskor HÍ. Hann hóf meistaranám við Guelph-háskóla í Kanada undir leiðsögn David Noakes og Skúla Skúlasonar við Hólaskóla. Meistaraprófi lauk hann 2001 og doktorsprófi frá Guelph háskóla 2008. Bjarni hefur stundað rannsónir á fiskum; hrognkelsum, hornsílum og bleikjum eða á matnum sem fiskarnir borða. Bjarni hefur líka gert sér mat úr mat fiskanna, ekki síst með rannsóknum á áður óþekktum grunnvatnsmarflóm. Um að ræða tvær áður óþekktar tegundir, sem hafa þróast í íslensku grunnvatni í milljónir ára og lifað af margar ísaldir. Þessar tegundir geta veitt okkur ómetanlegar upplýsingar um uppruna og þróun lífs á Íslandi og ekki síður uppruna landsins þar sem tilvist þeirra er talin tengjast landreki. Rannsóknirnar voru unnar í samstarfi við Jörund Svavarsson, Snæbjörn Pálsson og Etienne Kornobis við Háskóla Íslands.

Um 250 manns sóttu líffræðiráðstefnuna 2011 þar sem flutt voru 84 erindi og 77 veggspjöld kynnt. Ágrip erinda og veggspjalda má lesa á vefsíðu ráðstefnunar (lif.gresjan.is/2011).


Líffræðirannsóknir á Íslandi 2011 11. og 12. nóvember- skráningarfrestur framlengdur til 8. október.


Skráningarfrestur þeirra sem vilja halda erindi eða vera með veggspjöld á ráðstefnunni var framlengdur til 8. október.

Vinsamlegast skráið þátttöku og útdrátt á síðunni http://lif.gresjan.is/2011/skraning.php.

Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort þið óskið eftir því að vera með veggspjald eða erindi. Útdrættir, erindi og veggspjöld skulu vera á íslensku eða ensku, en við hvetjum þátttakendur til að kynna efni sitt á íslensku sé þess auðið. Lengd útdrátta skal ekki vera lengri en 1500 slög.

Strangt til tekið þurfa aðrar gestir ekki að skrá sig, það er hægt að borga skrásetningargjöld og skrá sig á ráðstefnu degi. En það hjálpar okkur við skipulagningu ef sem flestir senda inn skráningu fyrir ráðstefnuna.


Líffræðirannsóknir á Íslandi 2011 11. og 12. nóvember

Líffræðifélag Íslands heldur ráðstefnu dagana 11. og 12. nóvember 2011. Við hvetjum alla til að nýta tækifærið til að kynna líffræðirannsóknir sínar með erindum eða veggspjöldum.

Ráðstefnunni verður skipt upp í málstofur eftir viðfangsefnum, ekki verða fleiri en ‏‏þrjár málstofur samhliða. Ef áhugi er á sérstökum málstofum, komið þá hugmyndum til skipuleggjenda ráðstefnunnar eigi síðar en 10. september. Stefnt er að því að hver málstofa hefjist á 30 mínútna inngangserindi, en hvert erindi er síðan 15 mínútur. Ef of margar beiðnir um erindi berast, getur þurft að bjóða sumum þáttakendum að senda inn veggspjald í staðinn.

Skráningarfrestur á ráðstefnuna er 1. október.

Vinsamlegast skráið þátttöku og útdrátt á síðunni http://lif.gresjan.is/2011/skraning.php. Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort þið óskið eftir því að vera með veggspjald eða erindi. Útdrættir, erindi og veggspjöld skulu vera á íslensku eða ensku, en við hvetjum þátttakendur til að kynna efni sitt á íslensku sé þess auðið. Lengd útdrátta skal ekki vera lengri en 1500 slög.

Vinsamlegast hlaðið niður auglýsingum fyrir ráðstefnuna og hengið upp á vinnustað ykkar (bæði á íslensku og ensku - hvorutveggja á PDF formi).

Að lokinni ráðstefnunni, laugardagskvöldið 12. nóvember, verður haldinn haustfagnaður félagsins. Staðsetning og nánari uppýsingar verða gefnar síðar.

Nánari upplýsingar, um ráðstefnu og haustfagnað birtast á vefsíðu félagsins biologia.hi.is

Undirbúningsnefndin/stjórn líffræðifélagsins:

Snæbjörn Pálsson (snaebj@hi.is)
Snorri Páll Davíðsson (spd@gresjan.is)
Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir (log3@hi.is)
Bjarni K. Kristjánsson (bjakk@holar.is)
Arnar Pálsson (apalsson@hi.is)

 

Ráðstefna um íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni

Sameinuðu þjóðirnar helguðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni (biodiversity). Af þessu tilefni efna Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands til vísindaráðstefnu um rannsóknir á eðli, tilurð og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Ráðstefnan verður haldinn laugardaginn 27. nóvember 2010 í Norræna húsinu. Dagskráin stendur frá 9:00 til 18:30, fyrst yfirlitserindi, síðan styttri fyrirlestrar og veggspjaldakynning í Öskju, náttúrufræðihúsi (veitingar með veggspjaldakynningu eru í boði Gróco ehf).

Forskráning er ekki nauðsynleg, en skráningargjald er 500 kr - ókeypis fyrir nemendur. Innheimtist á staðnum.

Ingibjörg S. Jónsdóttir setur fundinn kl 9:00 og Sigurður Á. Þráinsson frá Umhverfisráðuneytinu flytur stutt ávarp.

Klukkan 9.15 flytur Ástþór Gíslason (Hafrannsóknarstofnun) yfirlitserindi um Líffræðileg fjölbreytni og nýlegar rannsóknir á henni á Mið-Atlantshafshryggnum

Klukkan 13.15 fjallar Simon Jeffrey (Joint Research Centre, The European Commission, Ispra, Italy) fjallar um "European Atlas of Soil Biodiversity"

Dagskrá fundarins og ágriparit fundarins á PDF formi

Styrktaraðillar eru Gróco ehf og Umhverfisráðaneytið.

Skipulagsnefnd:

Ingibjörg S. Jónsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Snæbjörn Pálsson og Arnar Pálsson.

Kæru líffræðifélagar!

Eftir nokkuð basl með netfangaskrá Líffræðifélags Íslands sem gufaði upphjá Símanum er loksins komin virk netfangaskrá. Þökk sé Snorra PáliDavíðssyni gjaldkera Líffræðifélagsins. Vonandi verður þessi skrákveikjan að betra sambandi innan Líffræðifélagsins og aukins starfs. Látið þennan póst berast sem víðast og til mögulegra félagsmanna. Þeir sem vilja vera með á póstlistanum geta sent okkur línu á lif@gresjan.is.

Síðasti atburður á vegum félagsins var Líffræðiráðstefnan haustið2009, sem var vel sótt, og lauk með með balli á Borginni. Laugardaginn 27.nóvember höldum við eins dags ráðstefnu í Norræna húsinu, með Vistfræðifélaginu, um líffræðilegan fjölbreytileika. Hægt er að skrá sig áráðstefnuna á netfanginu lifbr.fundur2010@gmail.com.

Við hvetjum félagsmenn til að hafa samband ef þeir hafa hugmyndir um hvað Líffræðifélagið gæti gert og ef þeir vilja hrinda einhverjum góðum hugmyndum í framkvæmd.

Heimasíða líffræðifélagsins: www.biologia.hi.is

Skráning á póstlista félagsins: http://lif.gresjan.is/skraning

Með kveðju stjórnin.


Líffræðiráðstefnan 2009

Í tilefni 30 ára afmælis líffræðifélags Íslands og 25 ára afmælis Líffræðistofnunar Háskólans var haldin ráðstefna um líffræðirannsóknir á Íslandi 6. og 7. nóvember 2009.

Haustfagnaður líffræðifélagsins var haldin í tengslum við ráðstefnuna að kvöldi þess 7. nóvember í Gyllta sal Hótel Borgar. Þar var margt um dýrðir, K.P. Magnússon veislustjóri, Skúli Skúlason flutti ræðu og Ólafur Páll (dægurmálafrömuður) lék  tónlist fyrir létta fætur. Nánari upplýsingar í tilkynningu.

Nánari upplýsingar eru á sérsíðu um ráðstefnuna (einnig í valstiku hér fyrir ofan).

Information on the 2009 Icelandic biology conference.

Styrktaraðillar líffræðiráðstefnunar 2009 voru:


Krabbameinsfélag Íslands

Landsamband veiðifélaga

Landsvirkjun

Orf líftækni


Gróco ehf

Cetus

 

Íslensk erfðagreining

Háskólinn á Hólum

Alcoa fjarðaál sf.

Umhverfisstofnun

Hafrannsóknarstofnun


Háskóli Íslands

Samtök líffræðikennara

Cistron (cistronehf hjá gmail punktur com)

Mennta og menningarmálaráðuneytið

Umhverfisráðuneyti

Líffræðistofnun háskólans

Hið íslenska bókmenntafélag

Eldri heimasíða félagsins (http://www.centrum.is/biologia/) var haldið uppi af Ingu Hrund Gunnarsdóttur. Hönnun var í höndum Dagnýjar Reykjalín. Flest efni af eldri heimasíðu hefur verið flutt hingað inn. Núverandi stjórn hefur ákveðið að hætt að borga fyrir þá síðu og hýsa síðu líffræðifélagsins á biologia.hi.is. Vinsamlegast bendið vefstjóra á ef einhvers er saknað af eldri síðu eða ef þið lumið á efni sem ætti heima á síðu líffræðifélagsins.