Ingibjörg Rósa Björnsdóttir fjallaði um málþingið á nemendavefnum www.student.is. Hún gaf okkur góðfúslega leyfir til að endurbirta pistilinn hér. Fréttin birtist fyrst á síðu www.student.is, undir fyrirsögninni Hefur maðurinn eðli?

Þann 12. febrúar voru 200 ár liðin frá fæðingu Charles Darwin. Jafnframt eru í ár liðin 150 ár frá því að hann setti fram þróunarkenninguna í bók sinni Uppruni tegundanna. Af því tilefni verða haldnir Darwin-dagar vítt og breitt um heiminn allt þetta ár og var haldið málþing í Öskju á fimmtudag þar sem spurningunni um það hvort maðurinn hafi eðli var velt upp.

Í upphafi málþingsins var tilkynnt um úrslit í ritgerðasamkeppni sem Samtök líffræðikennara og aðstandendur Darwin-daganna efndu til meðal framhaldsskólanema. Fyrstu verðlaun hlaut Vopnfirðingurinn Kári Gautason, nemi við Menntaskólann á Akureyri, og fékk hann afhentar 75.000 kr. og bókagjöf við mikinn fögnuð viðstaddra. Fyrirlesarar nálguðust efnið frá sjónarhorni heimspeki, tölvunarfræði og náttúruvísinda og var þétt setinn bekkurinn á málþinginu.

Framsöguerindi fluttu: Ari K. Jónsson, forseti tölvunarfræðideildar HR, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, Jón Thoroddsen, heimspekingur og grunnskólakennari, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur og Skúli Skúlason, prófessor og rektor Háskólans á Hólum.

Að erindunum loknum sköpuðust fjörugar umræður og greinilegt að spurningin um eðli mannsins vefst enn þá fyrir fólki. Ártíð Darwins verður áfram fagnað og eru á döfinni íslenskir Darwin-dagar í haust þegar haldin verður ráðstefna um þróun lífsins og þróunarkenningu Darwins sem og erlendir gestir fengnir reglulega til að halda fyrirlestra um mál þessu tengd. Nánari upplýsingar um daga Darwins má finna á vefslóðinni www.darwin.hi.is.

Skrifað af irb - irb@hi.is þann 16.02.09