Málþingið í tilefni af afmæli Darwins var ljómandi vel sótt, salur 132 í Öskju var næstum fullsetinn. Í upphafi málþingsins gerði Sigurður S. Snorrason forseti líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ grein fyrir Darwin deginum um víða veröld, og ræddi í nokkrum orðum framlag Darwins til líffræðinnar og þær spurningar um þróun og erfðir, sem enn er verið að rannsaka. Að því loknu lýsti hann málþingið sett.

Hafdís Hanna Ægisdóttir (við Landbúnaðarháskóla Íslands) lýsti þeim viðburðum sem verða hérlendis á árinu 2009 í tilefni afmælis Darwins og bókar hans Um uppruna tegundanna.

Þá tók við Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor við menntavísindasvið HÍ, sem var formaður dómnefndar í ritgerðasamkeppni sem haldin var á meðal framhaldskólanemenda um Darwin og áhrif hans. Niðurstöðum keppninar er gerð skil annarstaðar.

Þá tók við hið eiginlega málþing. Ari Kristinn Jónsson hóf leikinn og ræddi um greind, sérstöðu mannsins og það hvernig hann má greindar vélar. Ari og samstarfsmenn við gervigreindarsetur HR hafa náð góðum árangri í "þróun" hugbúnaðar sem sýnir ákveðin einkenni greindar. Orðið "þróun" er hér sett í gæsalappir til að undirstrika að í sumum tilfellum er náttúrulegt val notað til búa til forrit með ákveðna eiginleika. Í slíku tilfelli þarf höfundur forritsins ekki að vita nákvæmlega hvernig það er uppbyggt, hann þarf bara að hafa góða leið til að meta frammistöðu forritsins til að geta valið út hæfustu afbrigðin (og þá um leið hafnað þeim vanhæfu). Slæður úr erindi hans má finna hér.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir flutti erindi "að hálfu leyti api enn". Inngangspunktur hennar voru breytt sýn okkar á eðli mannsins í kjölfar birtingar Uppruna tegundanna. Hún flutti erindið á mjög lifandi hátt, og klikkti út með flottum lokaorðum "[l]íklega geymum við eðlin tvenn og þrenn, jafnframt því að vera vitsmunaverur erum við hárlitlir ogstirðbusalegir apar." Pistil hennar má finna hér.

Jón Thoroddsen

 

Skúli Skúlason flutti lokaerindi málþingsins og ræddi um manninn sem náttúruveru. Við höfum tilhneygingu til að sjá okkur sem aðskilin frá náttúrunni, en "Maðurinn sem hluti náttúrunnar" var kjarni málflutnings Skúla. Fyrirlestri hans svipaði til eldmessu á köflum en tilfinningarnar báru þó aldrei rökfestuna ofurliði.  Náttúran á góðan málsvara í Skúla og erindið á við okkur öll.