Ritgerðarsamkeppni fyrir framhaldskólanema um Darwin og þróun lífsins.

 

Í tilefni afmælis Darwins var haustið 2008 efnt til ritgerðasamkeppni í framhaldsskólum landsins sem Samlíf (Samtök líffræðikennara) stendur fyrir í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélag og skipuleggjendur Darwins daganna 2009.

Ritgerðarefnið var Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Skilafrestur var til 15. janúar  2009 næstkomandi og skila átti ritgerðum inn á netfangið ritgerdasamkeppni@gmail.com. Vegleg verðlaun voru veitt af Samtaka líffræðikennara (Samlíf), Hið íslenska Náttúrufræðifélag og Dagar Darwins 200. Samlíf lagði til verðlaunafé og Hið íslenska bókmenntafélag bókagjafir.

Bókin "Uppruni tegundanna" kom út á íslensku sem eitt Lærdómsrita Bókmenntafélagsins árið 2004, í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar og  yfirgripsmiklum inngangi eftir Örnólf Thorlacius þar sem hann rekur hugmyndir forvera og áhrifavalda Darwins, mótun þróunarkenningarinnar og afdrif hennar eftir hans dag. Þetta mun vera yngsta þýðing verksins á erlent tungumál. Af því tilefni er eintaki af íslensku gerðinni nú sérstaklega stillt upp í sýningarskáp í breska náttúrufræðasafninu í London á sýningu í tilefni af 200 ára afmæli Darwins.

Á árunum 1887-1889 ritaði Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur/náttúrufræðingur greinaflokk um sögu líffræðinnar og þróunarkenningu Darwins og birti í "Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags". Árið 1998 kom út bókin "Um uppruna dýrategunda og jurta" í flokki Lærdómsrit Bókmenntafélagsins, þar sem þessar greinar Þorvaldar eru saman teknar, endurbirtar og þeim fylgt úr hlaði með vönduðum og fróðlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðing.

Úrslit voru tilkynnt og verðlauna afhent fyrir 3 bestu ritgerðirnar fór fram á tveggja alda afmæli Darwins, þann 12. febrúar 2009.