Efnt var til ritgerðasamkeppni í samstarfi Samtaka líffræðikennara (Samlíf), Hið íslenska Náttúrufræðifélag og Dagar Darwins 200. Samlíf lagði til verðlaunafé og Hið íslenska bókmenntafélag bókagjafir. Hér fylgir tilkynning sem var send öllum félögum í Samlífi.

Ágæti náttúrufræðikennari

Á næsta ári verður minnst tvennra merkra tímamóta í sögu náttúruvísinda: Tvær aldir verða þá liðnar frá því Charles Darwin fæddist í þennan heim hinn 12. febrúar árið 1809. Enn fremur verða þá liðin 150 ár frá því að tímamótarit Darwins Um uppruna tegundanna (On the Origin of Species) var gefið út fyrsta sinni. Í ritinu setti Darwin fram þróunarkenningu sína sem gjörbylti hugmyndum manna um þróun lífvera. Afmælisársins verður minnst á margvíslegan hátt víða um heim. Hér á landi mun m.a. fara fram ráðstefna haustið 2009. Þá er stefnt að bókaútgáfu og jafnframt verður efnt til fyrirlestraraðar með erlendum gestum og ritgerðasamkeppni í framhaldsskólum landsins, sem við erum að kynna með þessu bréfi.

Ritgerðarefnið er: Darwin og áhrif þróunarkenningar hans á vísindi og samfélög. Nú er komið að því að hrinda ritgerðasamkeppninni úr vör og þar leitum við til ykkar um aðstoð. Við beinum því til ykkar að þið hvetjið nemendur ykkar og samkennara til að leggja sitt af mörkum. Ritgerðin skal vera um 5000-6000 orð og ætlast er til að allur frágangur, þ.á m. meðferð heimilda sé lýtalaus. Ekki er gert ráð fyrir því á þessu stigi að myndir fylgi ritgerðum en ritnefnd Náttúrufræðingsins, tímarits HÍN, telur vel koma til greina að birta í tímaritinu bestu ritgerðina að mati dómnefndar. Ef til slíks kæmi verður þess að sjálfsögðu farið á leit að höfundur leggi til myndir eða komi með ábendingar þar um.

Skila skal ritgerðum inn á netfangið ritgerdasamkeppni@gmail.com Skiladagur er 15. desember 2008 og verðlaun verða afhent 12. febrúar 2009 á 200 ára ártíð Darwins. Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu ritgerðirnar.

1. Verðlaun : 75.000.- kr + bókaverðlaun

2. Verðlaun : 50.000.- kr + bókaverðlaun

3. Verðlaun : 25.000.- kr + bókaverðlaun

Ritgerðirnar verða einkum metnar út frá efnistökum, meðferð heimilda og málfari. Dómnefnd ritgerða skipa: Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, þróunarvistfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum Helgi Guðmundsson, fyrrum íslenskukennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, tilnefndur af stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags, Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands Snæbjörn Pálsson, þróunarfræðingur við Háskóla Íslands og Starri Heiðmarsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri.