Að kveldi 1 júlí 1858 gerði sér enginn grein fyrir því hversu merkilegur atburðir hafði gerst. Þennan dag var kynnt á fundi Linneaska félagsins í Lundúnum kenning um náttúrlegt ferli sem gæti útskýrt tilurð og fjölbreytileika tegunda. Lesnar voru greinar eftir tvo höfunda, annar starfaði við söfnun í Austur Indíum en hinn vann aðallega á sveitabæ sínum. Báðir komust að sömu niðurstöðu um ferli sem gæti útskýrt aðlögun lífvera að umhverfi sínu. Hvorugur höfundanna sóttu fundinn, og fór efni hans og greinanna ekki hátt meðal fræðimanna árið 1858. Formaður Linneaska félagsins komst svo að orði í árslok að árið hafi verið blessunarlega fábrotið á vísindasviðinu (full tilvitnun að neðan).

"The year which has passed has not, indeed, been marked by any of those striking discoveries which at once revolutionize, so to speak, the department of science on which they bear."

Blessunarlega átti sagan eftir að sýna okkur hvernig uppgötvun Alfred Russel Wallace og Charles Roberts Darwins á náttúrulegu vali umbylti líffræði, skyldum greinum og á margan hátt heimsmynd fólks. Það er merkilegt að greinar þeirra félaga sem kynntar voru þennan júlídag vöktu litla eftirtekt, og það þurfti útgáfu bókar Darwins, "um uppruna tegundanna..." ári síðar til að kynna hugmyndina ítarlegar og í allri sinni dýrð. Þar setti Darwin fram þetta mesta grundvallarlögmál líffræðinnar, rökstutt með gögnum jafnt úr steingervingasögu, ræktun á dúfum, þekkingu á líffærafræði og líflandafræði. Þróunarkenningin svaraði ekki bara spurningunni um uppruna tegundanna, heldur kastaði einstöku ljósi á aðrar greinar líffræðinnar, frá atferlisfræði til frumulíffræði.

Félagsmenn í linneaska félaginu gerðu sér fljótlega grein fyrir mikilvægi þróunarkenningarinnar og gefur félagið út orðu tileinkaða Darwins og Wallace á 50 ára fresti til að minnast upplesturs greina þeirra. Hana hafa margir merkir líffræðingar hlotið í gegnum tíðina, einkum fyrir rannsóknir á fjölbreytileika lífvera og kröftum þróunar.

Þeir sem vilja kynna sér málið betur er bent á heimasíðu Linneaska félagsins í London, og sérstaklega pistla á síðu félagsins tileinkaða greinum þeirra félaga.