Charles Robert Darwin er einn merkasti líffræðingur sögunnar. Hann er þekktastur fyrir þróunarkenninguna sem útskýrir þróun lífvera og tilurð tegunda. Darwin vann um áratuga skeið við að rannsaka fjölbreytileika tegunda, dreifingu þeirra og aðlögun að umhverfi sínu. Náttúrufræðingurinn Arthur Russel Wallace tókst einnig á við þetta vandamál og komst að sömu niðurstöðu og Darwin. Þróunarkenningin var fyrst kynnt á fundi Linneaska félagsins í London sumarið 1858 þegar tvö handrit, annað eftir Darwin og hitt eftir Wallace, voru lesin fyrir fundargesti. Athyglisvert er að hvorugur þeirra var viðstaddur þessa stóru stund í visindasögunni. Arthur Wallace var staddur í Austur indíum, þar sem hann vann fyrir sér öðru þræði við að safna skordýrum, fuglshömum og plöntusýnum. Ef undan er skilin heimsreisan á hvutta (Beagle) var Charles Darwin alla tíð heimakær, bjó í sveit og brá sér ekki til borgar fyrir upplestur handritsins.

Framlag Darwins til vísindanna reyndist mun viðameira, sérstaklega með útgáfu bók hans Um uppruna tegundanna.... árið 1859. Bókin er "ágrip" á stærra verki sem Darwin hafði unnið að um áratuga skeið, og dregur saman staðreyndir héðan og þaðan úr lífríki, jarðsögu og landbúnaði. Hann setti kenninguna fram á skýran hátt og rökræddi grundvallar forsendur og afleiðingar hennar. Þróunarkenningin samanstendur í raun af tveimur grundvallarhugmyndum, önnur er sú að náttúrulegt val leiði til aðlagana og varðveiti eiginleika lífvera og hin er sú að allar lífverur á jörðinni eru skyldar og myndi þróunartré.

Í tilefni afmælis Darwins og útgáfu á Um uppruna tegundanna hafa verið settar saman nokkrar vefsíður um líf hans og starf. Til að mynda eru öll ritverk hans og fjöldi bréfa eru nú aðgengileg á netinu.

Nokkrar síður á netinu Bækur Darwins: http://www.darwin-online.org.uk/

Bréf Darwins: http://www.darwinproject.ac.uk/

Líf Darwin: http://www.aboutdarwin.com/

Síða the Guardian um Darwin: http://www.guardian.co.uk/science/darwinbicentenary

Síða Nature um Darwin http://www.nature.com/darwin (ath ekki allar greinarnar eru aðgengilegar vegna þess að áskrift vantar)

Síða Linneaska félagsins í London: http://www.linnean.org/

Nokkrar síður eru tileinkaðar Darwin dögunum um víða veröld:

http://www.darwinday.org/

http://www.darwin200.org/